„Allir blaðamenn urðu yfir nótt stríðsfréttaritarar“

Rita Ruduša      Mynd/Auðunn
Rita Ruduša Mynd/Auðunn

Rita Ruduša er þrautreyndur blaðamaður og þekkt baráttukona fyrir bættri lýðræðis- og fjölmiðlamenningu í heimalandi sínu Lettlandi – og reyndar víðar um Austurblokkina fyrrverandi. Meðal fyrri starfa hennar er t.a.m. að stýra Baltic Centre for Media Excellence, en starf þeirrar miðstöðvar er helgað því markmiði að stuðla að vandaðri og sjálfstæðri fjölmiðlun í Eystrasaltslöndunum og grannlöndum þeirra, sem áður voru ýmist hluti af eða á áhrifasvæði Sovétríkjanna sálugu. 

Tíðindamaður BÍ var á ferð í Lettlandi á dögunum og hitti Ritu að máli. Síðan í ársbyrjun 2022 hefur aðalstarf hennar snúist um aðstoð við úkraínska blaðamenn. Hún er einn af þremur sérfræðingum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fól ábyrgð á umsjón áætlunarinnar EU4 Independent Media, en hún tengist samstarfssamningum Evrópusambandsins (svonefndum Eastern Partnership-samningum) við sex fyrrverandi Sovétlýðveldi: Belarús (Hvíta-Rússland), Úkraínu, Moldóvu og Kákasuslýðveldin Aserbaídsjan, Armeníu og Georgíu. 

Upprunalegt höfuðmarkmið EU4 Independent Media var að ýta undir almannaheilla-blaðamennsku sem byggir á staðreyndum, er áreiðanleg, virðir jafnrétti kynjanna (fact based, gender inclusive and reliable public interest journalism) og er þannig betur í stakk búin að gegna aðhaldshlutverki sínu með stjórnvöldum og öðrum valdaöflum. 

Það var því nýbúið að renna áætluninni af stokkunum þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar í fyrra. 

„Ég hélt í fyrstu vinnuheimsóknina til Kíev til að undirbúa framkvæmd áætlunarinnar í Úkraínu tveimur vikum fyrir innrásina,“ greinir Rita frá. „Heræfingar Rússa nærri landamærum Úkraínu stóðu þá sem hæst, og stemmningin var þannig að við sem vorum á þessum fundum þarna í Kíev á þessum tíma fundum á okkur að líklega yrði að gerbreyta framkvæmdaáætlunum okkar innan tíðar. Það stóð heima: Við þrjú í framkvæmdanefnd áætlunarinnar vorum vart komin hvert til síns heima þegar ósköpin dundu yfir: Innrásin var hafin. Strax um nóttina sem fréttirnar bárust reyndum við í ofboði að ná sambandi við okkar fólk – ég er sjálf lengi búin að þekkja marga blaðamenn í Úkraínu,“ segir Rita. 

Að halda blaðamönnum á lífi – og blaðamennsku

„Skömmu síðar áttum við nýjan fund og urðum að endurskrifa alla framkvæmdaáætlunina. Í stuttu máli má segja að hin nýja endurskoðaða áætlun snúist um þetta: Að halda blaðamönnum á lífi. Og að halda blaðamennsku á lífi. Allt sem gert er verður að þjóna þessum höfuðmarkmiðum. En hvernig átti að fara að því? Línurnar tóku fljótt að skýrast: Í upphafi var mikilvægast að reyna að tryggja líkamlegt öryggi blaðamanna næst vígstöðvunum. Sjá þeim fyrir hlífðarbúnaði og veita þeim þjálfun í að haga sér þannig að þeir taki ekki óþarfa áhættu í þessum hættulegu aðstæðum. Þetta var jú þannig að bókstaflega yfir nótt urðu allir blaðamenn í Úkraínu stríðsfréttaritarar. Aðeins brot þeirra hafði áður hlotið þjálfun sem slíkir,“ segir Rita, og bætir við:

„Það flækti reyndar málið að árásaraðilinn beindi jafnvel vísvitandi vopnum sínum að vel merktum blaðamönnum, svo að með því að vera vel merkir jókst í raun hættan fyrir þá frekar en að það drægi úr henni. Það er nú það hrikalega við þetta stríð: Árásaraðilinn hefur frá fyrsta degi ekki vílað fyrir sér að beina sprengjum sínum vísvitandi að sjúkrahúsum og öðrum borgaralegum skotmörkum, þar með talið byggingum sem óbreyttir borgarar, fjölskyldur, hafa leitað skjóls í og merkt stórum stöfum „BÖRN“. Flestir þeir blaðamenn sem hafa týnt lífi í átökunum í Úkraínu féllu á fyrstu vikunum eftir að innrásin hófst,“ segir hún.

Eftir að koma hlífðarbúnaði til skjólstæðinga áætlunarinnar og veita þeim grunnþjálfun í því hvernig stríðsfréttaritarar tryggja öryggi sitt var næst að þjálfa fólk í fyrstu hjálp og fleiru sem tengist því að vera viðbúinn því að bregðast við krísuaðstæðum sem koma upp á átakasvæðum. Til dæmis hvernig á að stöðva fossblæðingu úr manneskju sem hefur orðið fyrir sprengjubroti, með því sem hendi er næst. 

„Þriðja mikilvægasta atriðið í að reyna að tryggja öryggi blaðamanna á vettvangi er netöryggi – hvernig maður fer að því að verja sig fyrir stríðinu sem háð er á internetinu, verja heimildamenn sína o.s.frv. 

Í fjórða lagi beindum við þeirri aðstoð sem við gátum veitt í að hjálpa heilu ritstjórnunum að flytja sig um set, á öruggari stað. Til dæmis hjálpuðum við þannig heilli ristjórn að flýja með mannskap og búnað frá víglínubænum Bakhmut.“ 

Síðast en ekki síst: Áfallahjálp

Síðasta atriðið í upptalningu Ritu yfir það hvað aðstoðinni sé nú beint í er áfallahjálp. Nánar tiltekið: Að þjálfa fólk í að umgangast tráma, það andlega áfall sem fylgir því að upplifa þá harmleiki sem blaðamenn á vettvangi svona átaka óhjákvæmilega gera. 

Rita leggur mikla áherslu á þetta atriði. „Andlega álagið sem blaðamenn starfa undir við þessar aðstæður er alveg hrikalegt – og hafið í huga að fréttamenn frá öðrum löndum sem fara í stuttan leiðangur nærri vígvellinum fara síðan heim í öryggið. Úkraínsku blaðamennirnir njóta ekki þess munaðar. Þeir geta ekki „fjarlægt sig aðstæðunum“ með þessum hætti eins og lengra að komnir kollegar þeirra, heldur endurlifa jafnvel trámað á hverjum degi. Við höfum því beint hluta af aðstoðinni á vegum EU4IM-áætlunarinnar í áfallameðferð fyrir blaðamenn frá Úkraínu. Allt er þetta gert í von um að þeir verði áfram í stakk búnir að halda úti þeirri blaðamennsku sem Úkraína – og umheimurinn allur – þarf á að halda á þessum tímum,“ segir Rita Ruduša.