Alvarleg brot

Í tveimur nýjum úrskurðum siðanefndar BÍ, nr. 8 og nr. 9 2022-2023, er komist að þeirri niðurstöðu að Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hafi gerst sekur um bæði alvarleg og mjög alvarleg brot gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. 

Mál nr. 8 2022-2023 fjallar um kæru Vilhelms Róberts Wessman vegna umfjöllunar Mannlífs um sig, og eru listaðar upp alls 28 greinar birtar í Mannlífi á tímabilinu frá 4. mars til 22. ágúst 2022. Mál nr. 9 2022-2023 fjallar um eina grein til viðbótar, birta í Mannlífi 13. september 2022. 

Í umfjöllun siðanefndar um mál nr. 8 er vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 8/2021-2022 og nr. 9/2021-2022, sem kveðnir voru upp 31. maí 2022, en þar komst siðanefnd að þeirri niðurstöðu að „með móttöku fjármuna frá Halldóri Kristmannssyni, vegna bókarskrifa um kæranda, hafi kærði orðið vanhæfur til að fjalla um málefni kæranda í fréttamiðli með þeim hætti sem hin kærða umfjöllun var sett fram enda hafi honum borið skv. 5. gr. siðareglna að varast slíka hagsmunaárekstra.“ 

Þar segir einnig: „Kæruatriði 1-22 varða umfjöllun í miðlinum frá 4. mars 2022 til 17. maí 2022 en fyrrgreindir úrskurðir Siðanefndar voru upp kveðnir eftir þann tíma eða 31. maí 2022. Siðanefnd telur þær greinar, sem merktar eru kærða, vera alvarlegt brot á siðareglum með sama hætti og í fyrri úrskurðum. Greinar nr. 23-27, frá 3. júní 2022 til 27. júlí 2022, sem merktar eru kærða, eru hins vegar birtar eftir uppkvaðningu úrskurðanna og eru því ítrekun á brotum gegn siðareglum. Siðanefnd telur að skrif og birting kærða á þeim greinum vera mjög alvarlegt brot á siðareglum.

Eftir uppkvaðningu úrskurða Siðanefndar í framangreindum málum 31. maí 2022, ritaði kærði svokallaðan „fyrirvara“ eftir greinum, sem birtust frá 13. júní 20[2]2, sbr. kæruliði 25-27, þess efnis að kærandi ynni að ritun bókar um kæranda. Siðanefnd telur það engu breyta um brot kærða.“ 

Í umfjöllun siðanefndar í máli nr. 9 2022-2023 segir: „Hin kærða umfjöllun er sama marki brennd og telur Siðanefnd að með umfjöllun um kæranda hafi kær[ði] áfram brotið gegn 5. gr. siðareglna.“ Brotið teljist mjög alvarlegt.