Árekstur fjársterks og fjölmiðils

Í morgun birti Samherji myndband á YouTube síðu sinni þar sem vegið er að vinnubrögðum RÚV í tengslum við málefni Seðlabankans og Samherja.  Fullyrt er að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hafi byggt umfjöllun sína um gjaldeyrismisferli Samherja, í gegnum sölu á karfa, á skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs, skýrslu sem í raun hafi aldrei verið skrifuð  af stofnuninni.  Helgi og RÚV hafa svarað því til að skýrslan hafi vissulega verið til og að þáttur Samherja á YouTube sé aðför að persónu margreynds fréttamanns.

Deilur um rannsókn Seðlabankans og húsleit hjá Samherja hafa verið uppi um langt skeið og hefur dómur fallið Samherja í vil í málaferlum við bankann. Hlutur RÚV í því máli hefur jafnan verið skammt undan, meðal annars vegna þess að RÚV var mætt á skrifstofur fyrirtækisins morguninn sem húsleitin hófst.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem árekstrar verða milli blaðamanna og fjölmiðla á Íslandi annars vegar og fjársterkra aðila hins vegar, og væntanlega ekki það síðasta. Er þetta áminning um að blaðamenn geta sífellt átt von á að baka sér óvinsældir í gagnrýnni umfjöllun sinni um menn og málefni. Skemmst er til dæmis að minnast þess að hlutur í DV var keyptur í þeim yfirlýsta tilgangi að koma Reyni Traustasyni úr ritstjórastóli. Fleiri dæmi mætti nefna, sem meðal annars hafa ratað til Mannréttindadómstóls Evrópu,  en til lengdar hefur það skipt mestu, bæði gagnvart almenningi og MDE, að um faglega blaðamennsku og vinnubrögð  sé að ræða og að nákvæmni, sanngirni og jafnvægi séu í fyrirrúmi. 

Sú aðferð Samherja að búa til sérstakan myndbandsþátt um málið er til marks um þá þróun sem er að verða í samskiptum fjölmiðla og (fjársterkra) fyrirtækja sem telja á sig hallað, en hefðbundinn andmælaréttur, kæruleiðir eða athugasemdir á heimasíðum virðast ekki vera taldar duga þegar málin eru stór og umfangsmikil. 

Sjá viðbrögð RÚV

Sjá þátt Samherja

Viðbrögð Helga Seljan og Þóru Arnórsdóttur