Árvakur braut lög

Félagsdómur dæmdi í dag  verkfallsaðgerðir Blaðamannafélags Íslands í nóvember löglegar og hafnaði þar með gagnkröfu Árvakurs um að aðgerðirnar hafi verið ólöglegar. Staðfest er ennfremur að í ákveðnum tilfellum braut Árvakur lög.

 Blaðamannafélagið hafði stefnt Morgunblaðinu vegna margháttaðra meintra verkfallsbrota í verkfallsaðgerður í byrjun nóvember síðast liðnum.  Niðurstaða félagssdóms er að hluti þeirra meintu verkfallsbrota hafi verið ólögleg og  brotið gegn ákvæðum laga um stéttafélög og vinnudeilur en önnur ekki, m.a. í tilfellum þar sem fréttir höfðu verið skrifaðar utan þess tíma þegar verkfallið stóð.

Dómurinn tekur af öll tvímæli um að það væri óheimilt að starfsmenn gengju í störf kollega sinna og birtu fréttir á mbl.is  á þeim forsendum að þeir væru í öðru stéttarfélagi og væru skrifandi blaðamenn. Segir í dómnum að þegar um sé að ræða löglega boðað verkfall  stéttarfélags nái vinnustöðvunin til allra starfsmanna í viðkomandi  starfsgrein innan fyrirtækisins óháð því hvort þeir eru í stéttarfélagi því sem boðaði verkfallið eða ekki.

Niðurstaða dómsins varðandi verktaka sem gengu í störf þeirra sem  voru í verkfalli vekja sérstaka athygli, en það telur dómurinn ekki verkfallsbort á þeirri forsendu að ráðningarsamband fyrirtækisins við þá sé annars eðlis. Í dómnum segir að þar sem viðkomandi starfsmenn séu verktakar  taki „kjarasamningur aðila í málinu ekki til starfa þeirra, hvorki samkvæmt efni sínu, né á grundvelli 1 gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutrygginga lífeyrisréttinda. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu  sýknaður af kröfu stefnanda..“

Gera má ráð fyrir að þessi niðurstaða um verktaka muni hafa mikil áhrif fyrir vinnumarkaðinn í heild.

Sjá dóm félagsdóms hér