BÍ: Vill sameiginlegan vettvang til varnar fjölmiðlafrelsi

Frá fundinum í Norræna húsinu í dag.
Frá fundinum í Norræna húsinu í dag.

Blaðamannafélag Íslands hefur  leitað eftir því, við góðar undirtektir, við fjölmiðlafyrirtæki að leitast við að skapa sameiginlegan vettvang til að styrkja fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Þetta kom fram í máli Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns BÍ, við lok  norræns málþings um fjölmiðlafrelsi á Íslandi sem haldið var í dag. Formaður Blaðamannafélagsins notaði tækifærið sem þetta málþing skóp til að ræða samstarf af þessu tagi m.a. við stjórnendur á Fréttablaðinu og Hringbraut og á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar of Vísis og eins bað Sigríður Dögg stjórnendur Kjarnans að vera með í slíku verkefni, en allir voru stjórnendur þessara miðla á staðnum. Sigríður sagði að án frelsis fjölmiðla væri ekkert lýðræði.

Tilefni þessa málþings sem var sérlega vel heppnað, var m.a. að Ísland hefur verið að færast niður á lista Fréttamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum og er þar nú í 16. sæti á meðan hin Norðurlöndin raða sér í efstu sæti listans.   Þátttakendur komu víða að og umræðunni skipt í tvennt, annars vegar umræðu um fjölmiðlafrelsi almennt og einnig reynsluna af árásum Samherja á fréttamenn RÚV og í síðari hlutanum var sjónum beint að rannsóknarblaðamennsku. Áberandi var að erlendir frummælendur, sem voru frá Norðurlöndum og Færeyjum, höfðu ekki orðið vitni að eða þekktu til sambærilegrar hörku í samskiptum blaðamanna og fyrirtækja og voru í viðbrögðum Samherja við fréttum Kveiks um fyrirtækið.

Allir frummælendur lögðu ríka áherslu á mikilvægi fjölmiðlafrelsis fyrir lýðræðið og kom fram hjá mörgum fyrirlesaranna að smæð fjölmiðlamarkaðarins hér og samfélagsins alls sköpuðu sérstakan  nálægðarvanda auk þess rekstrarumhverfi hefur verið sérstaklega erfitt á Íslandi líkt og víða annars staðar.

Með því að smella á tengilinn hér er hægt að skoða upptöku frá málþinginu, en athygli er vakin á því að sjálfur fundurinn hefst ekki fyrr en á 17 mínútu upptökunnar.