BNA: Árásir Trump á fjölmiðla komnar á hættulegt stig!

 Fjölmargir fjölmiðlamenn vestan hafs hafa nú vaxandi áhyggjur af því að stöðugar og í raun stigvaxandi árásir Trump Bandaríkjaforseta á fjölmiðla muni fljótlega enda með ósköpum. Eftir  uppþot og andmæli stuðningsfólks Trumps gegn fjölmiðlum í síðustu viku, klykkti forsetinn út með tísti nú á sunnudag þar sem fjölmiðlar eru skilgreindir sem andstæðingar fólksins. Í tístinu segir Trump: „Þeir ("fake news" fjölmiðlar) eru vísvitandi að efna til ágreinings og kynda undir vantrausti. Þeir geta líka framkallað stríð! Þeir eru mjög hættulegir og sjúkir“.  Chris Wallace  sagði á sunnudag um þetta allt að svo virtist sem andróðurinn gegn fjölmiðlum væri nú  virkilega að ná flugi.

Gagnrýni Trump á fjölmiðla hefur orðið til að hvetja sumt stuðningsfólk hans til að ráðast gegn fjölmiðlum of fjölmiðlafólki, ekki einvörðungu með því að gagnrýna það í orði heldur til þess beinlínis að hóta blaða- og fréttafólki. Fjölmargir þjóðþekktir fjölmiðlamenn hafa stigið fram og varað við þessari þróun um leið og þeir greina frá ýmis konar ógnunum og hótunum sem þeir hafa fengið.

Bret Stephens hjá New York Times greindi t.d. frá því á föstudag að hann hafi fengið skilaboð í talhólf sitt með ógnandi hótunum um að hann og fjölmiðlafólk væru einskis nýtt og óvinir bandarísku þjóðarinnar („You’re worthless, the press is the enemy of the United States people“).  Í pistli sínum segir hann beinlínis að með sama áframhaldi megi búast við að sá dagur komi að blóð liti  gólf á ritstjórnarskrifstofum, og það verði á ábyrgð forseta Bandaríkjanna.

Eftirfarandi eru nokkrar vefslóðir þar sem fjölmiðlafólk viðrar áhyggjur af þessari þróun:

Katy Tur, MSNBC

Philip Bump, Washington Post

Brian Stelter, CNN

Scott Simon, NPR