Einfalt og praktískt!

Titill greinarinnar eins og hún birtist í Blaðamanninum í desember 2022.
Titill greinarinnar eins og hún birtist í Blaðamanninum í desember 2022.

Grein Friðriks Þórs Guðmundssonar um siðareglur blaðamanna sem birtist í Blaðamanninum, 1.tbl. 44. árg. í desember 2022.

Starfandi íslenskir blaðamenn vilja draga úr hömlum. Yfir helmingur starfandi blaðamanna vill einfaldari siðareglur og praktískari en nú er. Þetta er á meðal athyglisverðustu niðurstaðna í Íslandshluta The Worlds of Journalism Study (WJS) rannsóknar sem hérlendis fór fram 2021. Þessar niðurstöður liggja fyrir á sama tíma og vinnuhópur á vegum BÍ vinnur að endurskoðun siðareglna BÍ, sem staðið hafa óbreyttar í rúma þrjá áratugi og hefur höfundur komið að vinnu hópsins sem ráðgjafi.

Höfundur kom spurningu að í WJS-rannsókninni sem hefur beina skírskotun til viðleitni BÍ til endurskoðunar siðareglna BÍ. Honum þótti umræður um efnislega endurskoðun, sem fram fóru á árabilinu 2006-2012, hafa leitt til fjögurra megin viðhorfa um æsktar breytingar á siðareglunum; í fyrsta lagi að ekki ætti að breyta siðareglunum, utan að lagfæra orðalag og röðun efnisatriða. Í öðru lagi að gera siðareglurnar ítarlegri og þá í takt við nálgun í flestum vestrænum ríkjum. Í þriðja lagi komu fram hugmyndir um að einfalda siðareglurnar, þ.e. láta þær snúast fyrst og fremst um áþreifanleg (konkret) vinnubrögð, frekar en um huglæg matsatriði. Í fjórða og síðasta lagi kom fram einstaka rödd um að BÍ ætti ekki að hafa siðareglur (og þá siðanefnd). Í rannsókninni 2021 voru svarendur beðnir um að velja á milli þessara kosta:

Ef breyta ætti siðareglum Blaðamannafélags Íslands (BÍ), hver eftirtalinna fullyrðinga lýsir viðhorfi þínu best?

  1. Það á að breyta siðareglunum sem minnst en þó má lagfæra orðalag og uppsetningu.
  2. Það á að einfalda núverandi siðareglur, leggja áherslu á atriði eins og hagsmunaágreining og ritstuld, en afnema ákvæði sem byggja að mestu leyti á huglægu mati eins og tillitsemi.
  3. Það á að hafa siðareglurnar viðameiri og taka upp ýmis ákvæði frá erlendum siðareglum.
  4. Það er ekki þörf á sérstökum siðareglum fyrir BÍ.

Í ljós kom að 54% starfandi blaða- og fréttamanna (56% meðal BÍ-félaga) völdu einfalda/konkret kostinn og skipti í því sambandi litlu máli hvort svarandi væri félagsmaður í BÍ eða ekki (sjá mynd 1). Um 27% völdu „breyta sem minnst“ kostinn. Einungis 14% töldu rétt að gera siðareglur BÍ ítarlegri og 5% vildu engar siðareglur hjá BÍ. Horft frá ákveðnu sjónarhorni má líka lýsa þessu svona: Um 60% vildu „einfaldari“ eða „engar“ siðareglur, en um 40% vildu „ítarlegri“ eða „lítt/ óbreyttar“ siðareglur. Rétt er í þessu sambandi að hafa í huga að rannsóknin var á meðal starfandi blaða- og fréttamanna og því utan hennar ýmsir félagsmenn með atkvæðisrétt á aðalfundum BÍ, svo sem þeir sem eru komnir á eftirlaun eða hafa farið til annarra starfa en eru enn félagar.: 

Tafla

Áhrif siðareglna BÍ á daglegu störfin

Í netkönnuninni var spurt um áhrif siðareglna BÍ á dagleg störf blaða- og fréttamanna (sjá mynd 2). Í svörum við spurningunni: „Hversu mikil eða lítil áhrif telur þú að siðareglur Blaðamannafélags Íslands hafi almennt á dagleg störf íslenskra blaða- og fréttamanna?“ kom fram afstaða sem ekki getur talist traustsyfirlýsing á gildandi siðareglum BÍ og voru efasemdirnar raunar meiri hjá BÍ-félagsfólki sjálfu en fagmönnum utan BÍ.

Af öllum svarendum sögðu 48% þeirra að áhrif siðareglna BÍ væru lítil eða engin. Einungis fjórða hverjum starfandi blaða- og fréttamanni þykir þessi áhrif vera mjög eða frekar mikil. Nokkuð mikill samhljómur var meðal blaða- og fréttamanna að því leyti að svör fólks innan eða utan BÍ voru mjög ámóta. Og stór hluti af „öðrum“ í þessum tölum er síðan genginn í BÍ með sameiningu félagsins og Félags fréttamanna. 

Tafla2

Almennar siðareglur versus siðareglur BÍ

Í rannsókninni var einnig að finna spurningu um áhrif siðareglna almennt fyrir fagstéttina (sem sagt ekki siðareglur BÍ sérstaklega), með staðlaðri spurningu sem hægt er að bera saman við svör frá 2012. Þar koma sterkar vísbendingar fram um að siðareglur teljist hafa minnkandi áhrif á störf blaða- og fréttamanna. Þeim sem finnst áhrif siðareglna almennt í faginu vera mjög mikil eða töluverð hefur fækkað milli 2012 og 2021 úr 64% í 51% og þeim sem finnst þessi áhrif lítil eða engin hefur fjölgað úr 14% í 29%.

Þannig blasir við að þegar spurt er um siðareglur fagstéttarinnar almennt (sjá mynd 3) telur annar hver blaðaog fréttamaður þau vera mjög mikil eða töluverð, en þegar spurt er um siðareglur BÍ sérstaklega telur fjórði hver blaðaog fréttamaður þau vera mjög eða frekar mikil. Höfundi þykir það röklegur gildisdómur að álykta sem svo, að gildandi siðareglur BÍ mæti ekki væntingum fagstéttarinnar sem skyldi. 

Tafla3

Áhrif úrskurða Siðanefndar BÍ

Þá þótti höfundi fengur í því að fá svör við því hvort úrskurðir Siðanefndar BÍ hefðu áhrif á störf blaða- og fréttamanna. Spurt var: Hversu mikil eða lítil áhrif telur þú að úrskurðir Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands hafi á störf íslenskra blaða- og fréttamanna?

Í svörunum (sjá mynd 4) koma miklar efasemdir fram um þessi áhrif og þá burtséð frá félagsaðild að BÍ; um 19% svöruðu „engin“ eða „mjög lítil“ og þegar „frekar lítil“ bætast við fer hlutfallið upp í 43%. Um 28% telja áhrif úrskurðanna mjög eða frekar mikil. Hér er eftirtektarvert að efasemdirnar um slík áhrif mælast meiri meðal BÍ-félaga en blaða- og fréttamanna utan BÍ. 

Tafla4

Innanhússreglur versus siðareglur fagstéttarinnar

Í Netkönnuninni var spurt um innanhússreglur fjölmiðlanna og leitast við að meta hvort þær væru fagmönnum meira eða minna virði en siðareglur fagstéttarinnar (sjá mynd 5). Í ljós komu mjög skiptar skoðanir í svörum við spurningunni:

„Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu: „Innanhúss siða- og verklagsreglur fjölmiðla skipta meira máli en siðareglur BÍ“.“

Svarendur skiptust nokkurn veginn jafnt í þrennt; 33% mjög eða frekar sammála (Innanhússreglu-megin), 29% voru mjög eða frekar sammála (siðareglumegin) en 38% sögðust hvorki sammála né ósammála. Ég leyfi mér að fella þann röklega gildisdóm að þarna á milli ríki í raun jafnræði; að þessar reglur eigi að fara hönd í hönd. 

Tafla5

Eiga fagleg viðmið alltaf að ráða?

Siðferðileg mörk og viðmið eru sjálfsagt alltaf umdeilanleg og gömul er sú rimma, hvort siðareglur eigi að vera „heilagur sáttmáli“ með hástemmdum heitstrengingum eða fyrst og fremst praktískar leiðbeiningar út frá faglegum forsendum. Höfundur hallast að því að áherslan í nútímanum sé öllu meiri á „praktíska“ kostinn, en aftur á móti er í sjálfu sér hægt að vera beggja megin borðs í þeim efnum!

Þannig er það ekki gefið að vilji til að framfylgja stranglega siðareglum eigi endilega við um allar aðstæður. Á myndum 6 og 7 má sjá svör um afstöðu til tveggja fullyrðinga, sem í fljótu bragði virðast vera mótstæðar með öllu. Annars vegar fullyrðingin „Fagleg viðmið ættu ávallt að ráða hvað telst vera siðferðislega rétt fyrir blaða- og fréttamenn að gera, óháð aðstæðum og persónulegum skoðunum“ og hins vegar fullyrðingin „Fagleg viðmið ættu að ráða hvað telst vera siðferðislega rétt fyrir blaða- og fréttamenn að gera nema óvenjulegar aðstæður krefjist að vikið sé frá þeim“. 

En það er hægt að vera sammála báðum fullyrðingunum! 87% svarenda reyndust mjög eða frekar sammála fyrri fullyrðingunni (fagleg prinsipp ráði alltaf) en 60% mjög eða frekar sammála síðari fullyrðingunni (aðstæður geta spilað inn í). 

Tafla 6

Tafla7

Læt ég þetta duga um svörin í WJS-rannsókninni. Að beiðni formanns félagsins hef ég hins vegar tekið saman og uppfært nokkrar lykiltölur og staðreyndir sem ég tók saman í grein í Blaðamanninn í desember-hefti 2015, þá í tilefni af hálfrar aldar afmæli siðareglanna.

Söguleg upprifjun

Blaðamenn Íslands hafa haft yfir sér siðareglur frá 9. maí 1965 eða í rúm 57 ár. Um þessar mundir eru kærð mál komin í alls 291 hjá Siðanefnd BÍ og er meðaltalið því 5 mál á ári. Siðareglurnar hafa breyst lítið frá upphafi, en það er skoðun höfundar að í raun hafi mikið breyst – með breyttum tíðaranda, aukinni fagmennsku og umturnuðu fjölmiðlaumhverfi hefur túlkun á hinum „fábrotnu“ siðareglum breyst töluvert.

Hinar fyrstu siðareglur BÍ entust í 21 ár, en þeim var breytt 15. júní 1985 og aftur aðeins 3 árum síðar eða 19. apríl 1988. Enn liðu bara 3 ár en þá tóku gildi núverandi reglur eða 23. mars 1991. Þessar breytingar voru tiltölulega fábrotnar að því leyti að enn er í gildi sú stefnumörkun sem lagt var af stað með í upphafi; að hafa siðareglurnar frekar stuttar og almennar og veita um leið Siðanefndinni gott svigrúm til að túlka reglurnar út frá ýmsum óskráðum reglum og tíðarandanum almennt. Þorsteinn Gylfason, sem lengi átti sæti í siðanefnd, lýsti þessari stefnumörkun svo árið 2004: „...siðareglur íslenzkra blaðamanna eru almennar reglur, en ekki nákvæm fyrirmæli. Siðareglur annarra þjóða eru miklu ítarlegri en íslenzku reglurnar. ... Þau einkenni á íslenzku reglunum að þær eru stuttar og almennar virðast mér hafa gefizt vel. Þau gefa siðanefnd færi á að bregðast með ferskum hætti við nýjum aðstæðum, og taka tillit til margvíslegra óskráðra reglna á fjölmiðlum og í samfélaginu sem oft breyta miklu um eðli máls“.

Um breytingar og endurskoðun

Rétt er að greina stuttlega frá þeim breytingum á siðareglunum sem þó hafa orðið. Árið 1985 var skerpt á ákvæði um vandvirkni, en aðal nýungin fólst í ákvæðum um að forðast hagsmunárekstra og hafa skýr skil milli auglýsingaefnis og ritstjórnarefnis („Kínamúr“). Einnig má nefna viðbætur um að blaðamenn hafi sannfæringu sína að leiðarljósi og gæti fyrst og fremst hagsmuna lesenda (almennings). Mikilvægar breytingar urðu og á viðurlagagreininni; brot voru hér eftir flokkuð eftir alvarleika þeirra (óverulegt, ámælisvert, alvarlegt og mjög alvarlegt) og mögulegar vítur á brotlega komu í stað mögulegrar brottvísunar úr BÍ. Breytingarnar 1988 fólu fyrst og fremst í sér að innleiða þá stefnumörkun að blaðamenn hefðu tjáningarfrelsi – skrif þeirra undir nafni í afmarkaða þætti yrðu ekki kæranleg til siðanefndar. Og breytingarnar 1991 – yfir í núverandi reglur – náðu fyrst og fremst til viðurlagaákvæðisins; tekin voru upp tímamörk (2 mánuðir frá birtingu), sett inn ákvæði um að Siðanefnd tæki ekki til umfjöllunar mál sem rekin væru á sama tíma fyrir dómstólum, kveðið var á um undanþágur frá leiðréttingakröfum og brotaflokkum var fækkað úr fjórum í þrjá („óverulegt“ féll út).

Núverandi reglur hafa gilt síðastliðin 31 ár og er fagstéttin á Íslandi hvað aftast á merinni meðal Evrópuþjóða í þeim efnum. Þrátt fyrir umrótið 1985-1991 hafa siðareglurnar sem í gildi eru af fæstum verið taldar skýrar og vel upp settar. Uppúr 2006 hófst ný umræða um endurskoðun siðareglanna og BÍ setti á fót Endurskoðunarnefnd (hina fyrri). Þessi nefnd lagði ekki til róttækar breytingar, skerpti á grundvallarreglunni um sannleiksleitina, stillti efnisatriðum betur upp en byggði að flestöllu leyti á því sem fyrir var. Ákvæði skyldu áfram vera tiltölulega fá og opin fyrir túlkun og breyttum tíðaranda.

Ekki voru allir á eitt sáttir og inn í þessa umræðu kom lærdómurinn af Hruninu 2008. Línur tóku að greinast í tvær ólíkar áttir (að frátöldum röddum um litlar sem engar breytingar vildu). Annars vegar heyrðust raddir þeirra sem vildu efnismeiri siðareglur, með áherslum sem þekktust alþjóðlega, en hins vegar þeirra sem vildu takmarka siðareglur að mestu við „konkret“ atriði (eins og ritstuld, hagsmunaárekstra o.fl.) en sleppa huglægum, matskenndum atriðum, svo sem er vörðuðu tillitsemi – að valda ekki óþarfa sársauka. Árið 2012 komu fram tillögur frá Endurskoðunarnefnd hinni síðari og stjórn BÍ um nýjar og nokkru ítarlegri siðareglur. En einnig kom tillaga frá hópi blaðamanna (samtals 31) að einfaldari siðareglur. Ágreiningur leiddi til samþykktar um skipan sáttanefndar, en hún kom þó aldrei saman og þar við sat; endurskoðun siðareglna BÍ hafði síðan legið í salti. Þar til núverandi stjórn setti fyrr á árinu á laggirnar nýjan vinnuhóp um enduskoðun siðareglanna og er sá hópur langt kominn með drög að siðareglum og við því búist að tillaga komi fram á næsta aðalfundi.

Þróun málafjölda og úrskurða

Á mynd 8 má sjá tölur um fjölda mála siðanefndar og úrslit þeirra frá upphafi. Af 290 málum hafa 109 þeirra eða tæplega 38% endað með úrskurði um brot á siðareglum. 115 hafa hins vegar endað með úrskurði um að reglurnar hafi ekki verið brotnar eða 40%. Afgangurinn eða 66 mál (23%) hafa endað með frávísun eða öðrum ámóta málalokum (niðurfellingu o.fl.). Ef eingöngu er horft til efnislegra úrskurða er niðurstaðan að 49% kærðra umfjallana enduðu með brotaúrskurði en 51% með „sýknu“. 

Tafla8

En þessar tölur eru á margan hátt villandi sem lýsing á stöðunni í nútímanum. Annars vegar hafa orðið töluverðar sveiflur í málafjölda eftir tímabilum. Kærufjöldi per starfsár náði hámarki á tímabilinu 1986-1995, en málum fækkaði í kjölfarið. Þeim hefur fjölgað aftur allra síðustu ár. Metfjöldi eins starfsárs er 13 mál 1991-1992 og gæti „metið“ fallið á yfirstandandi starfsári – í október 2022 voru málin orðin 11, og þá enn nokkrir mánuðir eftir af starfsárinu 2022-2023.

Á mynd 9 er búið að skipta úrskurðum upp í tólf 5-ára tímabil og þá sést vel hvernig hlutföllin hafa breyst með áberandi hætti. 

Tafla9

Ef horft er framhjá frávísunum og niðurfellingum og eingöngu miðað við efnislega úrskurði blasir við að á fyrstu þremur áratugunum var hlutfall sakfellinga um 65-70%, en málin þó tiltölulega fá. En frá og með miðjum tíunda áratug síðustu aldar, uppúr því að núverandi siðareglur tóku gildi með meðal annars strangari kæruskilyrðum, hefur sakfellingahlutfallið breyst og það hefur sigið niður í 20-30% efnislegra úrskurða síðasta áratuginn eða svo. Þetta er ekki „ný bóla“ heldur þróun sem er stöðug og til langs tíma. Höfundur telur þetta í fullu samræmi við breytt viðhorf og breyttan tíðaranda – og gjörbreytt fjölmiðlaumhverfi - og telur raunar ljóst að all mörg kærumál fyrstu áratuganna færu á annan veg í dag en þau gerðu þá. Um leið er reginmunur á málum fyrstu áratuganna og málum nútímans. Við erum ekki lengur í umhverfi flokksmálgagna og fátítt er nú, sem áður var algengt, að blaðamenn sjálfir kæri kollega.

Hvaða fjölmiðlar eru kærðir og hverjir kæra?

Eins og gefur að skilja eru þeir fjölmiðlar (og blaðamenn þeirra) mest kærðir til Siðanefndar sem „ágengastir“ hafa verið í umfjöllun sinni og vinnubrögðum. Þegar tekin eru saman síðdegisblöðin svokölluðu, DV og undanfararnir Vísir og Dagblaðið koma í ljós 68 af 290 kærðum fjölmiðlum (23%). Þetta er sá langstærsti af þeim hópum sem ég hef flokkað saman. Sakfellingahlutfallið hjá þessum miðlum er um 50%.

Í næsta flokk fjölmiðla set ég fjölmiðla Sýnar ehf (áður 365 ehf), Stöð 2, visir.is og Bylgjuna. Að þessum fjölmiðlum hafa 39 kærumál beinst eða um 13% heildarinnar – en rétt er að hafa í huga að þessir fjölmiðlar urðu fyrst til 20 árum eftir gildistöku fyrstu siðareglna BÍ. Þá er að nefna Ríkisútvarpið, með 34 mál eða um 12% heildarinnar. Morgunblaðið hefur fengið á sig 18 kærur (6% heildarinnar).

Næst eru til að taka vikublöðin saman, Helgarpóstinn (eldri og nýrri) og Pressuna, sem létu einkum til sín taka á árunum 1979-1993. HP/Pressan eiga 17 málanna eða 6% heildarinnar. Eins og síðdegisblöðin gjarnan þá leituðust þessir fjölmiðlar við að vera djarfir og róttækir, með ekki síst áherslu á rannsóknarblaðamennsku. Fréttablaðið hefur fengið á sig 16 málanna (6% heildarinnar). Af öðrum fjölmiðlum má nefna „hástökkvarann“ Mannlíf og Reyni Traustason, með alls 9 mál, flest á stuttum tíma, sem fyrst og fremst skýrist af áberandi málafjölda frá auðmanninum Róberti Wessmann og tengdum aðilum.

Lítum því næst á flokkun á kærendum. Þar er stærsti einstaki hópurinn „Almennir borgarar“ með 119 kærur og þá um 41% heildarinnar. Næst fyrirferðamesti hópurinn er „Fyrirtæki/forstjórar“ með 52 mál (18% heildarinnar). Saman í flokki eru „embættismenn/stofnanir“ með 33 mál (11%).

Stjórnmálamenn hafa ekki í gegnum tíðina verið „duglegir“ við að kæra – þeir eiga einungis 4% heildarinnar eða 11 mál – mestmegnis á tímum flokksmálgagnanna. Af öðrum hópum er þetta helst að nefna; blaðamenn sjálfir voru áður fyrr gjarnan að kæra hvern annan. Alls 29 blaðamannamál hafa ratað fyrir Siðanefnd, en slíkar kærur eru fátíðar í nútímanum – aðeins 4 mál eftir „dauða flokksblaðanna“.

Höfundur er sjálfstætt starfandi blaða- og fræðimaður