Ekki brot

Birtir hafa verið tveir nýir úrskurðir siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Í úrskurði nr. 6 2022-2023 er fjallað um kæru Höskuldar Guðmundssonar vegna umfjöllunar DV um uppgröft lögreglustjórans á Vestfjörðum á líkamsleifum manns sem lést í bílslysi þegar leigubíll fór út af Óshlíðarvegi 23. september 1973. Í úrskurði nr. 7 2022-2023 er fjallað um kæru sama aðila vegna umfjöllunar um sama mál í Stundinni 17. júní 2022. Í báðum tilvikum kemst siðanefndin að þeirri niðurstöðu að hinir kærðu – DV og Ágúst Borgþór Sverrisson blaðamaður annars vegar og Stundin og blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan hins vegar – hefðu ekki gerst sekir um brot á siðareglum BÍ. 

Þótt niðurstaða siðanefndar í báðum tilvikum sé sú að siðareglur BÍ hafi ekki verið brotnar gerir hún þó í umfjöllun sinni athugasemdir við vinnubrögð. Í báðum úrskurðum segir í umfjöllun siðanefndar: „Kærandi tekur fram að hann hafi leitað til fjölmiðilsins um leiðréttingar en engin svör fengið. Það er, að mati siðanefndar, óásættanlegt að slíkum athugasemdum sé ekki sinnt.“ 

Í úrskurði nr. 6, þar sem umfjöllun DV var til umfjöllunar, er til viðbótar tekið fram að í umfjöllun DV hafi verið „óþarflega langt gengið að segja að kærandi sé persónulega undir rannsókn lögreglu vegna manndráps“. Einn siðanefndarmanna taldi af þessari ástæðu miðilinn hafa brotið með ámælisverðum hætti gegn 3. grein siðareglna.