Evrópusjóðir fyrir blaðamenn

Rannsóknarblaðamennskuverkefni yfir landamæri í Evrópu geta hlotið allt að 50.000 evrur, andvirði um sjö milljóna króna, í styrk úr nýjum sjóði sem íslenskir blaðamenn geta þó aðeins sótt í sem samstarfsaðilar blaðamanna með aðsetur í aðildarríki ESB. 

Sjóðurinn sem um ræðir, The Investigative Journalism for Europe (IJ4EU), auglýsti í byrjun september eftir umsóknum í tvenns konar nýja verkefnastyrki sem ætlað er að styðja við rannsóknarblaðamennskuverkefni sem ná yfir landamæri innan Evrópu. Í fyrsta lagi svonefnt Investigation Support Scheme sem getur séð slíkum samstarfsverkefnum blaðamanna frá a.m.k. tveimur löndum fyrir styrkjum á bilinu 5.000 til 50.000 evra. Umsóknarfrestur rennur út 13. október næstkomandi. Eftir það verður næst tekið við umsóknum í þennan sjóð í janúar 2023. Nánari upplýsingar er að finna hér og hér

Þá hefur IJ4EU líka auglýst að sjálfstætt starfandi blaðamenn geti sótt um styrki í sérstakan sjóð til stuðnings samstarfs þeirra yfir landamæri innan Evrópu að stærri rannsóknarblaðamennskuverkefnum. Þar geta styrkir numið allt að 20.000 evrum, andvirði um 2,8 milljóna króna. Nánari upplýsingar hér og hér

IJ4EU var fyrst hleypt af stokkunum árið 2018, þegar 350 þúsund evrur voru til skiptanna og 12 verkefni hlutu stuðning. Árið 2021 var heildarfjárhæð styrkja komin yfir milljón evra. Styrkjaárið 2022-2023 eru 1,23 milljónir evra til úthlutunar. Aðalfjármögnunaraðili sjóðsins er framkvæmdastjórn ESB, en hann nýtur líka frjálsra framlaga frá ýmsum öðrum aðilum (sjá upptalningu hér). 

Um styrki úr IJ4EU-sjóðnum gildir almennt, að aðalumsækjendur verða að hafa aðalstarfsstöð sína í aðildarríki Evrópusambandsins. Blaðamenn í ríki sem er í virkum viðræðum um aðild að sambandinu eru líka gjaldgengir, en þó aðeins ef þeir eru í samstarfi við kollega í ESB-ríki. Aðalumsækjendurnir um styrk geta síðan fengið blaðamenn úr þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum sem hvorki eru í ESB né á leið inn í það, inn í samstarfið sem sótt er um styrk til. Verkefnið verður þó að beinast að málefni sem varðar hagsmuni íbúa innan ESB. Að þessum skilyrðum öllum uppfylltum geta m.ö.o. íslenskir blaðamenn notið slíkra verkefnastyrkja, þ.e. sem samstarfsaðilar kollega í ESB-ríkjum (og/eða umsóknarríki), eða með því að hafa aðalstarfsstöð sína í slíku ríki.