Facebook hyggst styðja íslenska fjölmiðla

Fjölmiðlanefnd hefur sent út póst á alla skráða fjölmiðla þar sem  athygli er vakin á því að íslenskir og aðrir norrænir fjölmiðlar geta nú sótt um fjárhagslegan stuðning frá Facebook til að styrkja útgáfu sína með ýmsum hætti. Ekki er þó víst að allir skráðir miðlar uppfylli skilyrði fyrir styrkveitingu. Stuðningur til hvers og eins umsækjanda verður í kringum 6,4 milljónir íslenskra króna (um 50.000 dollarar).  

Um er að ræða verkefni sem á ensku kallast „Nordic Reader Revenue Accelerator“ og er ætlað fréttamiðlum af öllu tagi (vefmiðlum, prentmiðlum, hljóð- og myndmiðlum). Staðbundnir fjölmiðlar og fjölmiðlar á svæðum þar sem lítil fjölmiðlun er fyrir hendi eru sérstaklega hvattir til að sækja um. Skilyrði er að viðkomandi fjölmiðill miðli reglulega efni sem varðar almenning (e. public interest news content). Þá er jafnframt á meðal skilyrða að fjölmiðillinn sé ekki í ríkiseigu.

Þátttakendur í verkefninu fá:

  • Þriggja mánaða þjálfun með vikulegum kennslustundum (þjálfun verður í höndum kennara með mikla reynslu af rekstri fjölmiðla).
  • Sex mánaða þjálfun með mánaðarlegum kennslustundum (alls níu mánaða þjálfun).
  • Fjárhagslegan styrk til að innleiða nýja þekkingu í starfsemi sína og koma nýjungum í framkvæmd. Nákvæm upphæð fer eftir umsóknum en verður á bilinu 5,1-7.7 milljónir kr. (40-60.000 dollarar). 

Verkefnið er fjármagnað og skipulagt af The Facebook Journalism Project sem er ætlað að hjálpa fréttamiðlum að byggja upp sjálfbæran atvinnurekstur. Verkefnisstjóri er Tim Griggs, fyrrum framkvæmdastjóri New York Times og Texas Tribune.

Frekari upplýsingar er að finna hér

Umsóknarfrestur er til 12. mars 2021. Hægt er að sækja um hér

Fram kemur í ábendingu Fjölmiðlanefndar afar gagnleg hvatning til að lesa samningsskilmála vel yfir en þar er m.a. að finna ákvæði um rétt Facebook til að nota nöfn og myndir umsækjenda í tengslum við verkefnið.

The Facebook Journalism Project Accelerator Programs in Europe Terms & Conditions