Færri auglýsingar en fleiri áskrifendur hjá norrænum fréttamiðlum í heimsfaraldri

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mjög mikil áhrif á fréttamiðla á Norðurlöndum. Auglýsingatekjur hafa dregist verulega saman, en á sama tíma hefur áhugi almennings á faglegum fréttaflutningi aukist, samkvæmt nýrri skýrslu frá Nordicom, rannsókna- og fræðasetri við Háskólann í Gautaborg. Mörg fjölmiðlafyrirtæki á Norðurlöndum greina frá mikilli fjölgun starfrænna áskrifta í kjölfar heimsfaraldursins

Covid-19 reið yfir Norðurlöndin og heiminn allan af fullum þunga vorið 2020. Ári síðar eru tök faraldursins á heiminum enn sterk. Hinvegar hafa bæði heilsufarsleg og efnahagsleg áhrif hans verið mismunandi á Norðurlöndum. Það sama á um viðbrögð stjórnvalda. 

Afleiðingar faraldursins fyrir fjölmiðlamarkaði á Norðurlöndum hafa líka verið margvíslegar.  Nordicom hefur, í umboði Norræna ráðherraráðsins, kortlagt þróun einkarekinna fréttamiðla árið 2020, á meðan faraldurinn hefur geysað.  Rannsóknin var unnin í samstarfi við fjölmiðlafræðinga frá öllum norrænu löndunum. 

 “Fjölmiðlamarkaðir á Norðurlöndum hafa hver sín sérkenni, og eru mjög ólíkir hvað varð stærð, útbreiðslu, fjármögnun og fjárhagslegan styrk. Afstaðan til opinbers stuðnings við einkarekna fjölmiðla er líka mismunandi í norrænu löndunum. Umfangsmikil samfélagsleg og efnhagsleg kreppa, – á borð við kórónuveiru faraldurinn – dregur þennan mun að mörgu leyti skýrar fram”, segir Ida Willig, prófessor við Hróarskeldu háskóla og einn ritstjóra skýrslunnar.

 Minnkandi auglýsingatekjur en auknar tekjur af notendum 

 Snarpur efnahagssamdráttur allstaðar á Norðurlöndum vorið 2020 var til þess að mjög dró úr viljanum til fjárfestinga á auglýsingamarkaði. Samdrátturinn í auglýsingum var sérstaklega áberandi í dagblöðum, þar sem lækkunin í fjórum stærstu ríkunum (Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð) nam um það bil 25 prósentum árið 2020. Það samsvarar um það bil 290 millióna Evra tekjutaps. Á sama tíma hefur fjárfesting í auglýsingum á netinu aukist í þremur af þessum fjórum ríkjum. 

 “Takmarkanir af völdum faraldursins hafa breytt hegðun á auglýsingamarkaði umtalsvert. Þó staðbundin verslun hafi átt erfitt uppdráttar hefur verslun á netinu styrkst mikið, sem hefur aukið áhugann á auglýsingum á netinu. Þessi þróun hefur verið ávinningur fyrir alþjóðleg fyrirtæki á borð við Google og Facebook en bitnað á staðbundnum fjölmiðlum”, segir Jonas Ohlsson, forstjóri Nordicom.

En á meðan einkareknum miðlum hefur gengið stöðugt verr að halda í auglýsendur, er þróunin þveröfug þegar kemur að notendum. Umtalsvert fleiri en áður fylgdust með fréttamiðlum af öllu tagi, ekki síst netmiðlum, í öllum norrænu löndunum á árinu 2020. 

Þessi aukni fréttaáhugi hefur einnig orðið til þess að fólk er tilbúnara til að greiða fyrir fréttaefni á netmiðlum. Niðurstöður skýrslunnar benda eindregið til þess að hlutfall heimila sem ákveða að kaupa fréttaefni á stafrænu formi hafi aukist á Norðurlöndum.

„Hefðbundnir fréttamiðlar hafa verið í mikilvægu hlutverki í faraldrinum, bæði hvað varðar að miðla upplýsingum og að fjalla um pólitískar ákvarðanir. Margar rannsóknir bendi líka til þess að tiltrú á norræna fréttamiðla hafi aukist á árinu 2020. Sú staðreynd að fleiri Norðurlandabúar hafa valið að greiða fyrir fréttaefni er merki um að fagleg blaðmennska hefur styrkt stöðu sína hjá fjölmiðlanotendum í faraldrinum,“ segir Ida Willig. 

Ríkisstyrkir slá öll met

Hruninu á auglýsingamarkaði vorið 2020 fylgdi mikil og heit umræða allstaðar á  Norðurlöndum um sérstakar stuðningsaðgerðir við fjölmiðla. Niðurstaðan í nær öllum norrænu löndunum varð að veita beinan stuðning til einkarekinna miðla á árinu 2020. Í heildina nam þessi stuðningur um 275 milljón evrum (rúmlega 41 milljarði ísl. kr), og var um þriðjungur þess sérstök aðstoð vegna faraldursins. 

Það var hins vegar verulegur munur á umfangi stuðnings eftir löndum. Þannig var stuðningurinn á Íslandi, hlutfallslega og miðað við höfðatölu, nálægt meðaltali alls svæðisins, umtalsvert minni en í Noregi, Svíðþjóð og Danmörku en heldur meiri en í Færeyjum, Grænlandi og Finnlandi.

Faraldurinn olli gríðarlegum samdrætti í íslensku efnahagslífi sem síðan  endurspeglaðist í miklum samdrætti auglýsingatekna hjá fjölmiðlum milli ára, oft um ein 10-15%, einum helsta tekjustofni þeirra. Samkeppni á auglýsingamarkaði hefur verið vaxandi að undanförnu með aukinni ásókn erlendra stórfyrirtækja s.s. Google og Facebook inn á markaðinn. 

 Viðbrögð stjórnvalda hafa að verulegu leyti verið almenns eðlis og sértækar aðgerðir vegna fjölmiðla ekki eins miklar og hjá sumum hinna Norðurlandanna. Þótt erfitt sé að tala um að norrænt fjölmiðlamódel í þessu samhengi vegna ólíkra viðbragða landa innan svæðisins, er spurning hvort Íslendingar horfi ekki frekar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar eftir viðmiðum en Færeyja, Grænlands og Finnlands. 

 Reikna má með að umræðan og áhrifin muni ýta við stjórnmálafólki um nauðsyn þess að styðja við einkarekna fjölmiðla. 

„Segja má að það sé kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og hriktir enn frekar í rekstrargrundvelli einkarekinna fjölmiðla vegna faraldursins, þá hefur traust til þeirra aukist í þessum sama faraldri. Mikilvægi  ábyggilegra upplýsinga hefur komið betur í ljós og þar með mikilvægi hefðbundinna miðla,“ segir m.a. í samantekt íslenska hópsins sem stóð að skýrslunni. 

Sjá skýrsluna í heild hér