Félagsfréttayfirlit BÍ 2022

Titill greinarinnar í Blaðamanninum, 1.tbl. 44.árg. des. 2022.
Titill greinarinnar í Blaðamanninum, 1.tbl. 44.árg. des. 2022.

Grein eftir Auðun Arnórsson verkefnastjóra, birt í Blaðamanninum 1/2022

Árið 2022 var nokkuð viðburðaríkt í starfi félagsins.

Snemma í febrúar var haldið metnaðarfullt málþing í Síðumúlanum um fjölmiðlastyrki. Þar töluðu, meðal annarra, Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra fjölmiðlamála, og Ida Willig, danskur prófessor í fjölmiðlafræðum, um ágæti opinberra rekstrarstyrkja til fjölmiðla. Nánar má lesa um málþingið í grein eftir Arnar Þór Ingólfsson hér í blaðinu.

Félagið tók þátt í fjölþjóðlegum viðbrögðum við innrás Rússa í Úkraínu, sem hófst 24. febrúar, meðal annars með fjáröflun til stuðnings úkraínskum blaðamönnum.

Blaðamannadagurinn 1. apríl var haldinn hátíðlegur með ör-málþingi um stöðu blaðamennsunnar og veitingu Blaðamanna- og blaðaljósmyndaraverðlaunanna. Auk þess var haldinn fyrsti fundur Samráðsvettvangs um fjölmiðla, sem samanstendur af fulltrúum BÍ og eigenda allra helstu fjölmiðla landsins.

Sigríður Dögg endurkjörin

Aðalfundur félagsins fór fram 28. apríl. Sigríður Dögg Auðunsdóttir gaf kost á sér áfram sem formaður félagsins, og hlaut ekki mótframboð. Nokkrar breytingar urðu þó á skipan stjórnar.

Í tengslum við aðalfundinn var metfjöldi blaðamanna heiðraður með gullmerki BÍ, 17 manns, en um veitingu þess gildir sérstök reglugerð. Meginreglan er sú að þeir sem hafa starfað í 40 ár í blaðamennsku hafi þar með unnið til þess að vera sæmdir gullmerki BÍ.

Á aðalfundinum var jafnframt sameining BÍ og Félags fréttamanna samþykkt f.h. félagsins. Af formlegri sameiningu félaganna varð eftir atkvæðagreiðslu í FF seinna um vorið.

Um miðjan maí stóð Bí að málþingi um upplýsingaóreiðu á ófriðartímum í samstarfi við Háskólann á Bifröst og Fjölmiðlanefnd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, flutti þar erindi og tók þátt í umræðum.

Verkefnastjóri ráðinn

Um sumarið afréð stjórn að auglýsa starf verkefnastjóra laust til umsóknar, til níu mánaða til að byrja með. Verkefnastjóra er ætlað að vinna náið með stjórn og formanni að því að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem metnaðurinn stendur til. Úr varð að Auðunn Arnórsson var ráðinn í starfið, og hóf störf um mánaðarmótin ágústseptember. Hann er þar með þriðji fasti starfsmaður félagsins ásamt Hjálmari Jónssyni framkvæmdastjóra og Jónu Th. Viðarsdóttur skrifstofustjóra.

Í september tilkynnti menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem málefni fjölmiðla heyra undir, um úthlutun styrkja til endurgreiðslu kostnaðar við rekstur einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. 25 miðlar hlutu rekstrarstuðning að þessu sinni. Til úthlutunar voru 380 milljónir króna.

Erindi til umboðsmanns Alþingis

Um mánaðamótin október-nóvember sendi félagið ábendingu til umboðsmanns Alþingis, þar sem hann var hvattur til frumkvæðisathugunar á stjórnsýslu lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra vegna sakamálarannsóknar þess á hendur fjórum blaðamönnum, sem staðið hefur yfir frá því í febrúar en lítið hefur frést af síðan blaðamennirnir sættu yfirheyrslum í ágúst. Að mati lögmanns félagsins brýtur rannsóknin bæði gegn ákvæðum laga, stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála og er hvorki í samræmi við hlutverk lögreglu né blaðamanna í lýðræðissamfélagi. Áður hafði einn af blaðamönnunum fjórum sent BÍ til vörslu afrit af málsgögnunum, sem lögreglan á Norðurlandi eystra hafði deilt með verjanda hans.

Fundur með Ríkislögreglustjóra

Í nóvember fór fram í sal BÍ fjölsóttur fundur blaðamanna með Ríkislögreglustjóra, í kjölfar þess að frétta‑ teymi RÚV var hindrað í störfum sínum af starfsfólki ISAVIA á Keflavíkurflugvelli þegar liðsmenn RLS unnu að því að koma hælisleitendum um borð í flugvél þar til brottvísunar úr landi. Nánar má lesa um þetta á Press.is

Dómar Félagsdóms

Í nóvember féll líka dómur í Félagsdómi í máli BÍ gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. RÚV ohf. vegna réttinda dagskrárgerðarfólks á RÚV. Þótt dómurinn hafi ekki að öllu leyti gengið málstað BÍ í vil þá tók hann af tvímæli um að BÍ hafi umboð til að gera kjarasamninga fyrir hönd dagskrárgerðarfólks á RÚV. Dómur sem féll nokkru fyrr í Félagsdómi, í máli sem snerist um lögmæti uppsagnar starfsmanns Icelandair sem hafði verið trúnaðarmaður verkalýðsfélags síns á vinnustaðnum, hafði líka áhrif á BÍ eins og önnur stéttarfélög, þar sem dómurinn var brýning um að öll stéttarfélög pössuðu vel upp á það að trúnaðarmenn þeirra hefðu á hverjum tíma sannanlega gilt umboð sem slíkir. Nánar má lesa um þetta í grein eftir Hjálmar Jónsson hér í blaðinu.

Málþing, kröfugerð, bók

Í lok nóvember fór síðan fram á Akureyri málþing undir yfirskriftinni Framtíð blaðamennsku og svæðisbundin fjölmiðlun. Nánar er fjallað um málþingið í grein hér í blaðinu. Snemma í desember urðu formannsskipti í Blaðaljósmyndarafélaginu. Á aðalfundi þess 1. desember var Vilhelm Gunnarsson kjörinn formaður, og tók við af Kristni Magnússyni. Kröfugerð BÍ í komandi kjarasamningaviðræðum var kynnt fyrir viðsemjendum í desember. Um miðjan desember kom út þriðja bindið í ritröð BÍ um íslenzka blaðamenn. Bókin ber titilinn „Af lífi og sál“ en í henni er rætt við tólf valinkunna blaðamenn. Guðrún Guðlaugsdóttir skráði. Nánar er fjallað um bókina í frétt hér í blaðinu.

Þátttaka í alþjóðastarfi

Eins og vera ber tók félagið virkan þátt í alþjóðastarfi hagsmunasamtaka blaða‑ manna á árinu, sem endranær. Formaður og eftir atvikum varaformaður sóttu fundi sambands norrænu blaðamannasamtakanna NJF, Evrópusamtakanna EFJ og alþjóðasamtakanna IFJ. Það sem helzt bar til tíðinda á þessum fundum er óánægja norrænu félaganna, BÍ þar með talið, með það hvernig forysta IFJ hefur kosið að halda á málum er varða rússnesku blaðamannasamtökin, en þau hafa stofnað héraðsfélög á hernumdum svæðum Úkraínu sem síðan hafa fengið aðild að IFJ, athugasemdalaust af hálfu stjórnenda þar. Óánægju norrænu samtakanna má reyndar rekja aftur til þess er rússneska blaðamannafélagið stofnaði héraðsdeild í Abkasíu, héraði í Georgíu sem Rússar hafa haldið hernumdu síðan árið 2008. Viðræður við stjórnendur IFJ hafa engu skilað og munu norrænu félögin nú alvarlega íhuga að segja sig úr IFJ í mótmælaskyni. Uppsögn aðildar tæki gildi sex mánuðum eftir að tilkynnt er um hana formlega, og á þeim tíma yrðu félagsmenn BÍ að samþykkja hana – ásamt breytingu á lögum félagsins sem að óbreyttu kveða á um aðild að IFJ.

Eitt og annað fleira

Vert er einnig að nefna að félagið sendi á árinu inn umsagnir um drög að ýmsum reglubreytingum stjórnvalda sem varða hagsmuni blaðamannastéttarinnar, svo sem um upplýsingastefnu stjórnvalda, breytingar á ákvæðum laga um hatursorðræðu og um frumvarp um framlengd lög um fjömiðlastyrki.Þá hefur á árinu staðið yfir samráð við Dómstólasýsluna um aðgengi blaðamanna að gögnum dómstóla. Því samráði verður haldið áfram á nýju ári. Blaðamenn lögðu sitt af mörkum til opinberrar umræðu á árinu, m.a. með þátttöku í pallborðsumræðum um upplýsingaóreiðu og tengd mál á málþingum í HÍ og víðar.

Salur BÍ í Síðumúlanum var vel nýttur á árinu, t.d. fór þar fram í október námskeið Norrænu blaðamennskumiðstöðvarinnar NJC um loftslagsmálablaðamennsku, með þátttöku 32 norrænna blaðamanna.

Siðanefnd BÍ felldi venju fremur marga úrskurði á árinu, eins og nánar má lesa um á bls 18, og í grein Friðriks Þórs Guðmundssonar hér í blaðinu. Faglegt innra starf félagsins á árinu beindist reyndar ekki síst að endurskoðun siðareglna félagsins, eins og Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður fjallar um í annarri grein. Nefna má loks í þessu samhengi að í október birtist á Press.is viðtal sem Auðunn Arnórsson tók við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra um nýjar siðareglur RÚV. Stefnt er að því að greidd verði atkvæði um nýjar siðareglur BÍ á aðalfundi í vor.

Tveir blaðamenn sem voru báðir mjög virkir í starfi BÍ féllu frá á árinu: Arna Schram, sem var varaformaður félagsins 2003 til 2005 og síðan formaður til ársins 2009, og Jóhannes Tómasson, sem gegndi ýmsum trún‑ aðarstörfum fyrir félagið á löngum ferli. Félagið þakkar þeim óeigingjarnt framlag í gegnum árin.