Fjárlög og fjölmiðlar: Ekki stuðningur vegna veiru

Ekki er gert ráð fyrir nýjum viðbótarframlögum til fjölmiðla í fjárlögum fyrir næsta ár en áfram er heimild fyrir um 400 milljóna stuðningi  verði fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur samþykkt. Ekki er grert ráð fyrir neinum sérstökum stuðningi vegna eftirkasta kórónuveirufaraldursins en ljóst er að rekstrargrundvöllur hins hefðbundna fjölmiðlakerfis hefur beðið  hnekki hér eins og annars staðar í heiminum. Mjög ólíkar áherslur og áhyggjur koma fram hjá stjórnmálamönum á Norðurlöndum vegna erfiðleika fjölmiðla og hefur stjórnarandstaðan í Noregi til dæmis gagnrýnt harðlega að framlög til fjölmiðla – ekki síst staðbundinna miðla – skuli ekki aukin umfram verðlags- og launabreytingar.

Fróðlegt er þó að skoða framlög Norðmanna til upplýsingakerfis lýðræðisins – fjölmiðlanna.  Ýmsar  tegundir styrkja falla undir styrkjakerfið þar í landi, en stærsti flokkurinn eru svokallaðir framleiðslustyrkir sem  samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 munu nema 369,6 milljón nkr. eða um 5,54 milljörðum íslenskra króna. Þá mun nýsköpunarstyrkur til fjölmiðlarekstrar nema um 20,9 milljón. nkr. eða 313,5 milljónum íslenskra króna.  Þessu til viðbótar koma svo sérstakir styrkir til svæðis- og menningarbundinna miðla, þ.e. samískra blaða sem fá um 519 milljónir ísl. kr. og dreifingarstyrkir í Finnmörku sem munu nema 34,5 milljónum.

Alls gera nema þessir styrkir til einkarekinna miðla rúmlegta 427 milljónum nkr. eða sem svarar rúmlega 6,4 milljörðum íslenskra króna.  Sérstakur samningur er í gildi gagnvart sjónvarpsstöðinni TV2 sem hefur skilgreint almannaþjónustuhlutverk og samkvæmt þeim samningi nema skuldbindingar ríkisins allt að 135 milljónum nkr. eða rúmlega tveimur milljörðum króna. Heildar framlag til einkarekinna miðla í Noregi er því 562,4 milljónir nkr eða um 1.553 íslenskar krónur á hvert mannsbarn í Noregi. Til samanburðar er þetta hlutfall 1.099 íslenskar krónur á hvert mannsbarn á Íslandi.

Loks verður framlagi til NRK haldið óbreyttu að verðgildi frá fyrra ári en um það er sérstakt samkomulag og verður framlagið um 6 milljarðar nkr. eða um 90 milljarðar. Þess ber að geta að þetta er nær allur tekjustofn NRK enda er það ekki á auglýsingamarkaði.

Sjá einnig hér