Formaður BÍ: Styðjum félaga okkar hjá NRK

"Við styðjum heils hugar félaga okkar hjá norska ríkisútvarpsinu í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og hvetjum þá til þess að hvika hvergi. Þeirra barátta er einnig okkar barátta og Blaðamannafélag Íslands stendur með norskum blaðamönnum svo lengi sem þeir eiga í þessum verkfallsátökum", segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ í tilefni af verkfalli blaðamanna hjá NRK, norska ríkisútvarpinu.

Í dag fóru um 1700 blaðamenn í Blaðamannafélagi Noregs (NJ) sem vinna hjá NRK í verkfall eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum um nýjan kjarasamning.

Ágreiningurinn milli blaðamanna og stjórnenda er margvíslegur. Þar á meða er það stefna NRK um að endurnýjun í blaðamannahópnum verðu um 100 manns árlega. Félagar í NJ gera hins vegar kröfu um að blaðamenn sem eru á miðjum starfsferli fái tækifæri til að fara í endurmenntun og endurnýja tæknihæfni og þekkingu sem er nauðsynleg í breyttum fjölmiðlaheimi.  Þá eru árslaun blaðamanna hjá NRK um 1,5 milljónum ísl. króna lægri en hjá öðrum stórum fjölmiðlum og þann launamun vilja blaðamenn NRK fá leiðréttan.  Blaðamenn NJ hjá NRK benda jafnframt á að á undaförnum árum hafi NRK sparað sér hundruð milljóna norskra króna vegna þess að blaðamenn vinna nú með hagkvæmari og hraðari hætti. Þessi hagræðing hefur einnig verið keyrð í gegn í þremur síðustu kjarasamningum og blaðamenn hafa takið á sig nýtt fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna sem hefur sparað stofnuninni 140 milljónir norskra króna árlega. Því segja blaðamenn það augljóst að NRK sé fjárhagslega í stakk búið til að fallast á skynsamlegar launahækkanir.  Loks er það krafa blaðamannanna að þeir blaðamenn sem eru lausamenn hjá stofnuninni og eru ráðnir á tímabundnum samningum fái leiðrétingu til samræmis við það sem fastir starfsmenn fá, en í dag er staða þeirra mun verri.

Verkfallið hefur gríðarleg áhrif í Noregi og er viðbúið að dekkun á hátíðahöldum 17.maí, þjóðhátíðardag Norðmanna fari úr skorðum. Eva Stabell hjá NJ segir mikinn hug í sínu fólki en vonast þó til að gengið verði til samninga sem fyrst.