Fréttalaust Fréttablað

Engar fréttir voru í Fréttablaðinu í dag vegna verkfalls blaðamana en þó kom blaðið út og var með „sérstæðu sniði“ eins og segir á forsíðu.  Á forsíðu er teikning frá Halldóri sem leikur sér með þetta óvenjulega útspil blaðsins þar sem mynd- og textalausar síður blasa við, en pisltar, aðsendar greinar og auglýsingar eru á sínum stað. Um þetta segir Jón Þórisson, ritstjóri m.a. á forsíðu: „Fréttablaðið hefur skyldur við lesendur og auglýsendur og því var tvennt sem lagt var til grundvallar þeirri ákvörðun að blaðið yrði gefið út við þessar aðstæður.  

Annars vegar að virða rétt blaðamanna til vinnustöðvunar. Því eru ekki fréttir í þessu tölublaði, en birt er annað ritstjórnarefni, sem tilbúið var áður en verkfall brast á.  Hins vegar að auglýsendur geti reitt sig á auglýsingamátt blaðsins og ekki kæmi rof í nærri tuttugu ára útgáfusögu þess.“

Verkfall blaðamanna stóð í 12 klukkustundir í gær og náði nú til prentmiðla.

Þessi afstaða og óvenjulega ákvörðun Fréttablaðsins virðist hafa mælst vel fyrir bæði meðal starfsmanna Fréttablaðsins og almennt hjá blaðamönnum og í samfélaginu.

Morgunblaðið, hinn stóri prentmiðillinn, birtir hins vegar fréttir og annað efni þannig að áhrif verkfalls þar eru ekki eins sýnileg.

Ekki er vitað um alvarleg verkfallsbrot í gær en farið verður betur yfir slíkt í dag.