Gagnrýnir niðurskurð á fréttastofu RÚV

Félag fréttamanna, sem er félag fréttamanna sem starfa á RÚV, hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af boðuðum niðurskurði á  fréttastofunni og fækkun stöðugilda þar.  Yfirlýsingin er svo hljóðandi: 

 

Yfirlýsing frá Félagi fréttamanna

Félag fréttamanna gagnrýnir þann niðurskurð sem fréttastofa RÚV stendur nú frammi fyrir. Á sama tíma og neyðarástand ríkir í samfélaginu og aukin krafa er gerð um stöðugar og traustar fréttir þá skýtur skökku við að skorið sé niður á fréttastofunni. Það gefur auga leið að fækkun um níu stöðugildi rýrir gæði og vinnslu frétta. Þegar dregið er úr getu fjölmiðla til að stunda gagnrýna blaðamennsku er hætta á að aðgengi almennings að nákvæmum og greinargóðum upplýsingum skerðist. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum upplýsingaóreiðu.

RÚV er hluti af almannavarnakerfinu en er þar eina stofnunin þar sem ekki er veitt meira fé til rekstursins vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, heldur er þvert á móti skorið niður í framlögum til stofnunarinnar. Þá telur Félag fréttamanna sæta furðu að yfirstjórn RÚV láti þann niðurskurð bitna á fréttastofunni, á sama tíma og störf hennar hafa sjaldan verið jafn mikilvæg í samfélaginu.

Uppsagnir þriggja fréttamanna hafa þegar tekið gildi. Um áramótin verður starfshlutfall nokkurra skert og samningar við aðra ekki framlengdir, þannig að allt í allt tapast níu stöðugildi, eða tæplega fimmtungur fréttamanna á fréttastofunni. Félag fréttamanna harmar uppsagnir vandaðra fréttamanna, þar á meðal starfsmanns með rúmlega aldarfjórðungs starfsaldur hjá stofnuninni. Sá hefur átt í viðræðum við yfirstjórn RÚV vegna vangoldinna yfirvinnugreiðslna, sem hann sannarlega hefur átt rétt á. Félagið setur spurningamerki við að starfsmaður sem barist hefur fyrir réttmætum kjörum sínum fái uppsagnarbréf áður en það mál er til lykta leitt.

Félag fréttamanna skorar á yfirstjórn RÚV að endurskoða boðaðan niðurskurð á fréttastofunni og skorar á stjórnvöld að sjá til þess að geta RÚV til að sinna almannavarnahlutverki sínu verði ekki skert.

Fyrir hönd Félags fréttamanna,  

Alma Ómarsdóttir,  formaður