Hæstiréttur ver tjáningarfrelsið í nýjum dómi

Í dómi Hæstaréttar, sem var kveðinn upp 14. desember síðastliðinn, er snúið við fyrri dómi Landsréttar, sem hafði dæmt Jón Ársæl til greiðslu 800 þúsund króna, auk vaxta, í miskabætur til konu sem var einn viðmælenda hans í sjónvarpsþáttum sem hann vann árið 2018 um hlutskipti fanga og fíknivanda á Íslandi. 

Sjónvarpsþættirnir sem um ræðir voru sýndir undir heitinu Paradísarheimt á RÚV síðla árs 2018. Í þáttunum birtust m.a. viðtöl við fanga og einstaklinga sem hafa glímt við vímuefnavanda. Meðal viðmælenda í þáttunum var B., sem síðar stefndi Jóni Ársæli, samstarfsmanni hans og RÚV til greiðslu miskabóta, á þeim grundvelli að í viðtalinu sem sýnt var hefðu komið fram viðkvæmar persónuupplýsingar án samþykkis hennar. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hinum stefndu í vil. B áfrýjaði, og Landsréttur dæmdi Jón Ársæl, eins og áður segir, til greiðslu miskabóta á grunni þess mats á efnistökum í umræddum sjónvarpþætti, að þau féllu ekki undir reglu þágildandi persónuverndarlaga um aukið tjáningarfrelsi í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku.

Í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku 

Í dómi Hæstaréttar var komist að gagnstæðri niðurstöðu; dómurinn taldi að með hugtökunum í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku væri átt við þá starfsemi fjölmiðla að miðla til almennings upplýsingum, skoðunum og hugmyndum. Skýra beri hugtökin fjölmiðlun og fréttamennska rúmt. Þannig tók 5. gr. þágildandi persónuverndarlaga ekki einungis til fjölmiðlanna sjálfra heldur einnig þeirra sem stunda fjölmiðlun og leggja þeim til efni, hvort sem þeir eru starfsmenn fjölmiðils eða verktakar.

Við mat á því hvort vega eiga þyngra réttur til friðhelgi einkalífs B eða tjáningarfrelsi Jóns Ársæls vísaði Hæstiréttur til þónokkurra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu auk dóma Hæstaréttar. Hæstiréttur tók fram að skorður við tjáningarfrelsi beri að túlka þröngt og að þær þurfi að grundvallast á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál nýtur aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Hæstiréttur taldi líklegt að málefnið sem þátturinn fjallaði um teldist eiga erindi við almenning.

Í dómi Hæstaréttar er reyndar tekið skýrt til orða hvað þetta varðar: „Hafið er yfir vafa að málefni fanga og aðbúnaður í fangelsum er efni sem hefur mikla samfélagslega þýðingu og að sjónvarpsþátturinn Paradísarheimt hafði að geyma framlag til mikilvægrar umræðu í þjóðfélaginu um það málefni.“

Um þetta segir Eva Helgadóttir, lögmaður Jóns Ársæls, í samtali við Press.is: „Þó komist hafi verið að því að umfjöllun þáttanna hafi verið framlag til mikilvægrar þjóðfélagsumræðu taldi Hæstiréttur að það þyrfti að skoða hvort sú vinnsla persónuupplýsinga um B sem fram fór hefði eingöngu verið í þágu fjölmiðlunar eða fréttamennsku. Í þeim efnum taldi Hæstiréttur að þættirnir hafi ekki haft það markmið að svala forvitni almennings. Efni þáttanna hefði heldur ekki verið með þeim hætti að höfðað hafi verið sérstaklega til tilfinningasemi áhorfenda. Því taldi Hæstiréttur að þættirnir hefðu verið unnir í þágu fréttamennsku og þar með ætti undantekning vegna vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku við. Þar af leiðandi yrði ákvæðum um samþykki og afturköllun sem fram koma í persónuverndarlögum ekki beitt.“

Hæstiréttur taldi svo að í ljósi friðhelgi einkalífs B þyrfti að skoða hvort samþykki hafi legið fyrir og hvort að B hafi verið hæf til að veita samþykki. Í því samhengi taldi dómurinn að ekki væri unnt að draga þá ályktun að B hafi ekki verið hæf til að veita samþykki fyrir viðtölunum eða að Jón Ársæll hefði með réttu átt að draga hæfi hennar í efa. Enn fremur var talið að samþykki hafi verið veitt og það hafi ekki verið afturkallað. Hæstiréttur taldi einnig að ekki væri tilefni til að álykta að vinnubrögð Jóns Ársæls hefði verið í ósamræmi við siðareglur Blaðamannafélagsins.

Niðurstaða Hæstaréttar var því sú að Jón Ársæll hafi ekki brotið gegn friðhelgi einkalífs B og að ekki hafi stofnast skylda til greiðslu miskabóta. Því var Jón Ársæll sýknaður af öllum kröfum.