Heimir Már býður sig fram til formanns BÍ

Heimir Már Pétursson
Heimir Már Pétursson

Skrifstofu Blaðamannafélagsins hefur borist eftirfarandi tilkynning vegna formannskosninga á næsta aðalfundi frá Heimi Má Péturssyni:

Ágætu félagar í Blaðamannafélagi Íslands. Eftir all nokkra umhugsun hef ég ákveðið að gefa kost á mér í embætti formanns félagsins okkar sem kjörið verður í fyrir aðalfund félagsins sem væntanlega fer fram í lok apríl. 

 Eins og þið vitið öll hefur alla tíð ríkt mikil óvissa um framtíð íslenskra fjölmiðla sem á undanförnum örfáum árum og áratugum hafa tekið miklum breytingum. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem liðin eru frá því ég hóf störf sem blaðamaður á Þjóðviljanum árið 1988 hafa breytingarnar raunar orðið svo miklar að nánast er hægt að tala um aðra veröld þá og nú.

 Án þess að fara nánar út í þessar breytingar sem við þekkjum flest þá skiptir miklu máli um þessar mundir að standa vörð um störf blaðamanna, vandaðrar blaðamennsku þar sem vinnubrögð hennar eru höfðu í heiðri gagnvart þeirri gífurlegu upplýsingaóreiðu sem nú herjar á almenning. Á sama tíma berjast frjálsir og óháðir fjölmiðlar fyrir tilveru sinni í samkeppni við erlenda samfélagsmiðla sem engu skila til íslensks samfélags.

 Víða er herjað á og þrengt að störfum frétta- og blaðamanna bæði að hálfu opinberra aðila og hagsmunaaðila sem og því umhverfi sem heiðarleg blaðamennska þarf að þrífast í um þessar mundir. Almenningur á ekki bara í erfiðleikum með að greina á milli frétta sem unnar eru eftir reglum blaðamennskunnar og hreinna falsfrétta heldur er honum í vaxandi mæli att gegn fjölmiðlafólki sem stjórnmálamenn víða um heim hafa séð sér hag í að gera að óvinum fólksins. Þannig vinna ákveðin öfl beinlínis að því að upphefja lygina yfir sannleikann eins og hann verður best höndlaður með vandaðri blaðamennsku.

 Það er þessi almenna staða sem og nauðsyn þess að verja kjör blaðamanna sem knýr mig til að bjóða mig fram til formanns Blaðamannafélagsins. Ég tel að reynsla mín geti nýst í samstarfi með góðu fólki í stjórn félagsins til að standa vörð um hag blaðamanna í sem víðasta skilningi þess orðs. Til að verja tjáningarfrelsið, málfrelsið, réttindi blaðamanna til að sinna störfum sínum hvar sem er á vettvangi samfélagsins og standa vörð um kjör félagsfólks sem alla tíð hafa notið lítil skilnings.

 En við þurfum líka að verja sjálfan tilverugrundvöll frjálsrar fjölmiðlunar sem ég man ekki eftir að þrengt hafi verið eins mikið að og á undanförnum árum í þá áratugi sem ég hef komið að starfi fjölmiðla.

 Ég leyfi mér að óska eftir stuðningi ykkar til þess að leiða félagið okkar og ef ég næ kjöri vona ég að sem flest ykkar leggið málefnum félagsins lið. Ef þið hafið einhverjar spurningar til mín komið þeim endilega á framfæri við mig beint eða sendið mér línu á heimirmar@me.com 

Kær kveðja,
Heimir Már