Hlutverk fjölmiðla á tímum upplýsingaóreiðu

Í pallborði sátu: Valgerður Jóhannsdóttir, Þórður Snær Júlíusson og Efla Ýr Gylfadóttir. Pallborðsst…
Í pallborði sátu: Valgerður Jóhannsdóttir, Þórður Snær Júlíusson og Efla Ýr Gylfadóttir. Pallborðsstjórinn Asimina Michailidou situr lengst t.h.

Verkefnið sem um ræðir ber yfirskriftina „Reclaiming Liberal Democracy in the Postfactual Age (RECLAIM)“, en það er þriggja ára samstarfsverkefni fjölda háskólastofnana í alls tólf löndum.  Verkefnið hlaut stóran styrk úr Horizon Europe, rannsóknasjóði Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu. Því er ætlað að koma fram með nýjar skilgreiningar og aðferðir til að greina hin víðtæku og ólíku áhrif sem upplýsingaóreiða hefur á lýðræði nú á dögum. Markmiðið er að greina stöðu upplýsingaóreiðu í Evrópu og nýta niðurstöðurnar til ráðlegginga um stefnumótun, fræðslu og aðgerðir til þess að sporna gegn neikvæðum afleiðingum upplýsingaóreiðu fyrir lýðræðislega umræðu og grunnstoðir frjálslynds lýðræðis í nútímasamfélagi. Alþjóðamálastofnun heldur utan um verkefnið en Maximilian Conrad, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir það. Sl. föstudag, 14. október, var verkefninu formlega hleypt af stokkunum með opnu málþingi við HÍ þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var meðal ræðumanna. 

Hluti af dagskrá þessa opnunarmálþings RECLAIM-verkefnisins voru pallborðsumræður um upplýsingaóreiðu og fjölmiðla. Nálgast má upptöku af umræðunum á vefsíðu Reclaim-verkefnisins: https://ams.hi.is/en/projects/reclaim/. Á upptökunni hefst pallborðsumræðan á mínútu 1:52:00. Umræðunni stýrði Asimina Michailidou frá Arena-stofnuninni við Óslóarháskóla en hún hefur umsjón þeim þætti Reclaim-verkefnisins sem snýr að fjölmiðlum. Í pallborði sátu Valgerður Jóhannsdóttir, umsjóðamaður náms í blaðamennsku við Háskóla Íslands, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar. 

Í inngangsorðum sínum að pallborðsumræðunni sagði Michailidou meðal annars: 

„We don't just want to investigate the negative effects of post-factual politics on journalism and the role of journalists in democratic society. We want to look at the democratic resilience of journalists themselves, what citizens think of this and their relationship of trust or distrust towards journalists, what policy makers think and what they intend to do about the challenges facing our post-factual democracies.“ 

Meðal þess sem fram kom í pallborðsumræðunni var að það væri ekki alls kostar rétt að almenningur hefði misst traust á fjölmiðlum eða blaðamönnum. Kannanir sýni að traust á hefðbundnum fréttamiðlum hafi haldist nokkuð hátt, sérstaklega almannaþjónustumiðlum. Vantraustið tengist frekar fréttaflutningi á netinu, sérstaklega á samfélagsmiðlum sem fólk af gefnu tilefni ætti erfitt með að treysta. Ýmislegt í rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla væri þó til þess fallið að grafa undan trausti, jafnvel næra neikvæðan spíral minnkandi trausts: Minnkandi tekjur fjölmiðla yllu því að blaðamenn yrðu að „hlaupa hraðar“, hefðu þ.a.l. ekki tíma til að setja sig eins vel inn í mál og æskilegt væri, hættan á mistökum ykist o.s.frv., sem aftur leiddi til minnkandi trausts. Minna trausti fylgdi minni neysla á fjölmiðlum, sem aftur leiddi til minnkandi tekna. Hefðbundin viðskiptamódel einkarekinna fjölmiðla væru í uppnámi. Því væri nauðsynlegt að stjórnvöld brygðust við og leggðu sitt af mörkum til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. Sívaxandi hlutdeild alþjóðlegra tæknirisa (aðallega Google og Meta) á auglýsingamarkaði væri vandamál sem virtist ofvaxið stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig að ná utan um. Norðurlönd, Ísland þar með talið, byggju þó við betri aðstæður en víða annars staðar, þar sem samfélagslegt traust væri eftir sem áður mikið og spilling í lágmarki.