Hugverk blaðamanna verðskuldi vernd á tímum gervigreindar

Á alþjóðadegi hugverkaréttar 26. apríl er fókusinn á tækninýjungar sem munu breyta sambandinu milli borgaranna og hugverka, þar með talið þeirrar sköpunargáfu sem liggur að baki góðum fréttaflutningi sem grundvallast á staðreyndum upplýsingum, virðir siðareglur og hreyfir við fólki. 

Þetta er meðal aðalatriðanna í sameiginlegri ályktun sem tvö stærstu aðþjóðasambönd blaðamanna í heiminum sendu frá sér - Alþjóðsambandsins IFJ og Evrópusambandsins EFJ. 

Þar segir:

„Við erum skuldbundin siðlegri gæðablaðamennsku og viðurkennum að hún byggir á því að blaðamenn geti haft í sig og á af vinnu sinni. 

Tæknin gerir það nú kleift að „þjálfa“ forritaðar vélar í að tileinka sér verk mannlegra höfunda, þar á meðal blaðamanna, ljósmyndara, teiknara og grafískra hönnuða. Vélarnar bregðast við spurningum með því að spá fyrir um hvaða orð eða myndir spurningarnar kalla á. Textavélarnar sem nú eru fram komnar á borð við gervigreindar-spjallforritið ChatGTP hafa á stuttum tíma orðið alræmdar fyrir að skálda upp alls konar upplýsingar, þar með talið uppskáldaðar heimildatilvísanir, og gera þetta með slíku viðstöðuleysi að fólk fellur auðveldlega í þá gryfju að taka vélabullið trúanlegt. 

Í tvær aldir hafa lýðræðissamfélög heimsins treyst á siðlega blaðamennsku sem grunnuppsprettu traustra upplýsinga fyrir borgarana, sem gerir þeim kleift að taka upplýstar ákvaraðnir, ekki síst í kosningum. Öfl fjandsamleg lýðræðinu hafa lengi leitað leiða til að grafa undan hugmyndinni um að til séu sannar, réttar upplýsingar og halda frekar á lofti áróðri valdstjórnarsinna og popúlista sem vilja frekar espa upp ótta og reiði frekar en að viðurkenna sannleikann. 

Upprunavottun grundvöllur trausts 

Ef orð, myndir og annað efni framleitt af sjálflærandi vélakerfum komast í umferð án þess að öllum sé ljóst að um slíkan tilbúning og falsanir sé að ræða stendur heimurinn frammi fyrir ófagurri framtíð þar sem ósvífnir lýðskrumarar geta sannfært fórnarlömb sín um að „sannleikur sé ekki til“. Það er vart til öflugra eyðileggingarafl fyrir mannleg samfélög en það að fólk missi traust til faglegs fréttaflutnings eða vísindarannsókna. Listaverk sem verða til fyrir tilstilli sköpunargáfu hæfileikafólks verða líka að vera skýrt aðgreinanleg frá afurðum gervigreindar. 

Við teljum að það sé brýn þörf á lagasetningu sem setur því skýr mörk hvernig nýta megi og birta almenningi afurðir gervigreinar, og þær verði að vera skýrt merktar sem slíkar. Lykilatriðið hér er nauðsyn þess að það sem mannshugurinn skapar sé „upprunavottað“ sem slíkt; að neytendur fái eins konar tryggingu fyrir mannlegum uppruna verks frá annarri manneskju (e. fellow-human). Tilkoma Netsins sýndi hve mikilvæg „siðleg réttindi“ höfunda hugverka væru til þess að verk sem sannalega væru þeirra sköpun væru eignuð þeim. Gervigreindin gerir þessi réttindi enn mikiilvægari; afurðir hennar ættu að skilyrðislaust að vísa til þeirra mannlegu hugverka sem hún byggir afurðir sínar á. 

Að breiða út þekkingu, vísindi, listir og menningu 

Tilgangur höfundarréttar er að hjálpa til við að útbreiða þekkingu, vísindi, listir og menningu. Höfundar hafa skapað þá þekkingu sem gervigreindartæknin byggir á – rétt eins og verk hinna mannlegu höfunda hafa verið „skröpuð“ til að búa til þjálfunarsett, án leyfis eða afgjalds. Sumir telja jafnvel að verk búin til af gervigreind muni ýta mannlegum höfundum út af markaðnum. 

Hefðbundin höfundarréttarlög má ekki veikja á grunni misskilnings um að slíkt sé nauðsynlegt til að hvetja til nýsköpunar. Að veita leyfi fyrir birtingu er eftir sem áður rétta leiðin til að veita aðgang að verkum höfunda. Að umsjá höfundarréttar sé í höndum höfundarréttarsamtaka eða sambærilegra stofnana er sérstaklega gagnlegt þar sem aðgangs er þörf að efni frá miklum fjölda rétthafa, svo sem eins og háttar til þegar verið er að nota hugverk höfunda til að „þjálfa“ gervigreindarkerfi. Það eru til leiðir til að koma greiðslum til rétthafa sem ekki eru beinir meðlimir í höfundarréttarsamtökum. 

Sköpunargáfa höfunda er mannleg virkni. Mannlegir höfundar verða að fá sanngjarna umbun þegar verk þeirra eru nýtt til að „þjálfa“ gervigreindarkerfi.“