Jónas Kristjánsson látinn

Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri lést á Hjartadeild Landspítalans að morgni 29. júní. Jónas var blaðamaður og fréttastjóri á Tímanum 1961-1964. Fréttastjóri Vísis 1964-1966. Ritstjóri Vísis 1966-1975. Einn stofnanda og ritstjóri Dagblaðsins 1975-1981. Ritstjóri DV 1981-2001. Ritstjóri Fréttablaðsins 2002. Útgáfustjóri Eiðfaxa ehf. 2003-2005. Leiðarahöfundur DV 2003-2005. Ritstjóri DV 2005-2006. Stundakennari í blaðamennsku við símennt Háskólans í Reykjavík 2006-2008.  Frá 2008 titlaði hann sig "eftirlaunamann og bloggara", en meira en 17.000 greinar Jónasar eru aðgengilegar á www.jonas.is.  Jónas var um tíma formaður Blaðamannafélags Íslands, Íslandsnefndar International Press Institute, Rotaryklúbbs Seltjarnarness, skólanefndar Seltjarnarness, fræðsluráðs Reykjanesumdæmis, Blaðaprents hf., M-klúbbsins, fræðslunefndar Fáks og ferðanefndar Fáks.

Eftir Jónas liggja ýmsar bækur og rit, einkum um ferðamennsku og hesta, auk pistla og blaðaskrifa og má þar nefna:  Líf í borg, 1973. Kóngsins Kaupmannahöfn, 1981, 2. útg. 1989. Heimsborgin London, 1983, 2. útg. 1988. Ævintýralega Amsterdam, 1984, 2. útg. 1992. París, heimsins höfuðprýði, 1985. New York, nafli alheimsins, 1988. Heiðajarlar, 1989. Ættfeður, 1990. Madrid og menningarborgir Spánar, 1991. Heiðurshross, 1991. Aldna og unga Róm, 1992. Merakóngar, 1992. Hagahrókar, 1993. Heiðamæður I, 1994. Heiðamæður II, 1995. Feneyjar engu líkar, 1996. Fákalönd, 1996. Hestaþing I, 1997. Hestaþing II, 1998. Víkingar I, 1999. Landsmót 2000, 2000. Víkingar II, 2001. Hrossanöfn, 2002. Frjáls og óháður, 2009. Þúsund og ein þjóðleið, 2011.

Jónas var heiðursfélagi í Blaðamannafélagi Íslands, handhafi blaðamannaskírteinis nr 3. Hann hafði gríðarleg áhrif á margar kynslóðir íslenskra blaðamanna og á íslenska blaðamennsku almennt. Í ævisögu Jónasar "Frjáls og óháður" og bókinni Íslenskir blaðamenn I  sem Blaðamannafélagið gaf út árið 2007 má lesa um þessi áhrif.

Jónas var fæddur í Reykjavík 5. febrúar 1940. Foreldrar hans voru Anna Pétursdottir bókari og Kristján Jónasson læknir. Systir Jónasar er Anna Halla lögfræðingur. Jónas lauk stúdentsprófi frá MR 1959 og BA prófi í sagnfærði frá HÍ 1966. Hann starfaði á ýmsum fjölmiðlum, lengst af sem ritstjóri. 

Eiginkona hans, Kristín Halldórsdóttir, fyrrverandi alþingismaður lést 14.júlí 2016. Börn þeirra eru Kristján jarðfræðingur, Pálmi fréttamaður og sagnfræðingur, Pétur kerfisfræðingur og Halldóra flugmaður.

Press.is og Blaðamannafélagið vottar ættingjum Jónasar innilega samúð sína.