Kristín hættir á Fréttablaðinu

Þær breytingar hafa orðið í dag á Fréttablaðinu að Kristín Þorsteinsdóttir, sem hefur verið útgefandi blaðsins síðustu ár og þar áður aðalritstjóri, hefur látið af störfum. Samkvæmt upplýsingum höfðum eftir Torgi, útgáfufélagi blaðsins á vef Fréttablaðsins hefur starf Kristínar verið lagt niður í kjölfar breytinga sem orðið hafa á útgáfunni og Fréttablaðið aðskilið frá öðrum þáttum sem seldir voru til Sýnar.  Rekstrarþættir sem áður voru undir útgáfustjóra munu þá færast til framkvæmdastjóra og stjórnarformanns.

Kristín sendir samstarfsfólki sínu kveðju á Facebook og hana má sjá hér að neðan:

"Kæru vinir og samstarfsmenn.

Ég hef unnið minn síðasta dag og skrifað minn síðasta leiðara í Fréttablaðið. Ný stjórn hefur tekið við með nýju fólki og nýjum áherslum.

Í rúm 5 ár, lengur en nokkur annar, stjórnaði ég fréttastofu 365 sem aðalritstjóri og útgefandi - þá stærstu fréttastofu landsins - og svo Fréttablaðinu eftir að fyrirtækinu var skipt upp, síðustu mánuði hef ég verið útgefandi. Þar áður sat ég í stjórn 365. Flestar kennitölur miðlanna, sem ég stjórnaði vitna um góðan árangur. Fréttir Stöðvar 2 náðu að velgja keppinautnum undir uggum - oft vorum við með meira áhorf en RUV, visir.is komst í fyrsta skipti yfir mbl.is undir minni stjórn, við gerðum frábæra hluti með nýjum áherslum og útliti Fréttablaðsins. Við breyttum skipuriti fréttastofunnar og gerðum hlut kvenna meiri en nokkru sinni. Um tíma voru flestir yfirmenn konur og stundum voru vaktirnar eingöngu skipaðar konum.

Þetta voru dýrðlegir dagar.

Auðvitað skiptust á skin og skúrir. Við þurftum að velta hverri einustu krónu, enda höfðum við úr miklu minni peningum að spila en keppinautarnir. Reglulega var farið í sparnaðaraðgerðir. Lífið var ekki alltaf auðvelt.

En ekkert af þessu hefði tekist án ykkar. Ég var svo heppin að hafa frábært starfsfólk mér við hlið, fólk sem hefur verið tilbúið að leggja meira á sig, en hægt hefur verið að ætlast til. Fyrir það vil ég þakka ykkur af öllu hjarta.

En nú skilur leiðir. Allt tekur enda. Vonandi tekur eitthvað nýtt og skemmtilegt við. Nóg er starfsorkan.

Takk og gangi ykkur sem allra best, Kristín"