Laun blaðamanna þurfa að hækka um 15% til að halda í við launaþróun

Mikið vantar á að laun blaðamanna hafi haldið í við hækkun launavísitölu undanfarin sex ár og þyrftu raunar að hækka um 15% til að halda í við hækkun launavísitölunnar að meðaltali á umræddu tímabili.  Þrátt fyrir það hefur kaupmáttur launa blaðamanna aukist talsvert á tímabilinu, enda hafa nafnlaunahækkanir ekki verið meiri í annan tíma samfara því að verðbólga hefur verið óvenju lág.

Þetta sýna niðurstöður launakönnunar sem fyrirtækið Intellecta framkvæmdi fyrir Blaðamannafélag Íslands í september, en fyrirtækið gerði sambærilega könnun fyrir félagið í október árið 2012.  Svörun í könnunni, sem náði einungis til félagsmanna á ritstjórnum og fréttastofum, var 40% sem er sambærileg svörun og fyrir sex árum síðan.

Föst laun blaðamanna reyndust nú vera 601.701 kr. á mánuði að meðaltali, en sambærrileg laun haustið 2012 voru 453.168 kr. Heildarlaun að meðaltali nú voru 632.478 kr. en heildarlaunin 2012 voru 476.624 kr. Þetta jafngildir 33% hækkun á þessum sex árum á sama tíma og neysluverðsvísitala hefur hækkað um 15%.  Launavísitalan sem Hagstofan reiknar út hefur hins vegar hækkað um 53% á þessum tíma og til þess að jafna þann mun þyrftu laun blaðamanna að hækka að meðaltali um 15%.  Þann fyrirvara þarf að gera að útreikningur Hagstofunnar byggir á pöruðum samanburði, en tölur í launakönnuninni ekki.  Það eru því fleiri breytur sem geta haft áhrif á þýðið í launakönnuninni heldur en á tölur Hagstofunnar.

Þessi niðurstaða er gott innlegg í þær kjaraviðræður sem framundan eru.  Meginverkefnið þar verður auðvitað að jafna þennan mun og tryggja að blaðamenn njóti að minnsta kosti sambærilegrar launaþróunar og aðrir launþegahópar á íslenskum vinnumarkaði.  Ástæður þessarar þróunar mega flestum vera ljósar. Fjölmiðlamarkaðurinn hefur verið að ganga í gegnum miklar breytingar hér á landi jafnt sem annars staðar og hefur átt erfitt með að fóta sig í nýju tækniumhverfi.  Það tekjumódel sem fjölmiðlamarkaðurinn byggði á hefur að hluta til verið eyðilagt og erfiðlega hefur gengið að finna annað sem virkar nægilega vel.  Tækifærin eru hins vegar fjölmörg og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn þegar til lengri tíma er litið.  Á sama tíma hafa flestar aðrar greinar samfélagsins búið við einstakt góðæri og verið í stakk búnar til þess að bjóða laun langt umfram það sem samist hefur um í kjarasamningum, þar sem spurn eftir vinnuafli hefur verið mikil.

Á meðfylgjandi töflu má sjá niðurstöður könnunarinnar í samanþjöppuðu formi.  Kynjaskipting var þannig að 60% voru karlar og 40% voru konur og var svörun í samræmi við það.  Fram kom að almennt voru konur betur menntaðar en karlar og voru með meiri ábyrgð, en karlar voru með mun lengri starfsaldur.  Þrír fjórðu þeirra sem svöruðu unnu innan við 20 yfirvinnutíma á mánuði og þriðjungur var með vaktaálag sem hluta launa sinna.  Nánar verður fjallað um niðurstöður könnunarinnar í nýju tölublaði af Blaðamanninum sem er væntanlegt síðar í mánuðinum.

HJ