Laun eru nú 23% undir viðmiði frá 2012

Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.
Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.

Grein um niðurstöður launakönnunar BÍ 2022 sem birtist í 1.tbl. 44. árg. Blaðamannsins, desember 2022, eftir Auðun Arnórsson og Sigríði Dögg Auðunsdóttur.

Grunnlaun blaðamanna hafa dregist aftur úr almennri launaþróun á síðustu tíu árum um sem nemur 23 prósentum, en sé miðað við þróunina síðustu fjögur ár er munurinn mun minni, eða um fimm prósent.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna sem lesa má út úr niðurstöðum nýrrar launakönnunar, sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecta gerði í haust meðal fastráðinna blaðamanna á ritstjórnum og fréttastofum með fleiri en 5 starfsmenn. Þetta er þriðja slíka könnunin sem Intellecta gerir fyrir BÍ á síðustu 10 árum – 2012, 2018 og nú 2022. Svörunin að þessu sinni var svipuð og áður, sérfræðingar Intellecta höfðu gild svör að vinna úr frá 45% þeirra 315 sem fengu könnunina senda.

Þegar lykiltölur úr þessum síðustu þremur launakönnunum eru bornar saman kemur í ljós að grunnlaun hafa ekki hækkað í samræmi við almenna launaþróun í landinu. Ef laun hefðu samkvæmt launakönnun árið 2012 haldið í við launaþróun (launavísitölu Hagstofunnar) ættu grunnlaun að vera 23 prósentum hærri að meðaltali. Ef við berum einungis saman árin 2018 og 2022 hafa blaðamenn dregist aftur úr öðrum stéttum um sem nemur um fimm prósentustigum.

Talsvert launaskrið

Raunlaun blaðamanna hafa þó þróast með jákvæðari hætti en taxtalaunin samkvæmt síðustu kjarasamningum; þeir hafa því notið launaskriðs líkt og launafólk í öðrum stéttum. En þetta beinir líka athyglinni að því að launataxtar kjarasamninga eru komnir í hrópandi ósamræmi við raunlaun. Það er því mikilvægt að í komandi kjarasamningum verði það eitt af áhersluatriðunum að leiðrétta taxta til samræmis við raunlaun. Ástæðan er ekki síst sú að það er mikilvægt að laða að nýtt fólk í stéttina, og launataxtar sem eru mun lægri en þau raunlaun sem verið er að greiða eru ekki til þess fallin.

Það loðir mjög við opinbera ímynd blaðamennskustarfsins að það sé streituvaldandi og illa launað. En það er ekki á það bætandi ef taxtarnir sýna ekki raunsanna mynd af þeim launum sem þó eru greidd, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja í nýjustu launakönnuninni, en hún byggist á raunlaunum fólks í septembermánuði síðastliðnum.

Enginn launamunur milli kynja!

Meðal annarra eftirtektarverðra niðurstaðna nýju kjarakönnunarinnar er að launamunur kynjanna mælist í raun enginn – konur mælast með um 2 prósentustiga hærri tekjur en karlmenn, yfir það heila, en það er innan skekkjumarka. Þetta er niðurstaðan úr jafnlaunagreiningu, sem Intellecta vann sérstaklega úr gögnum könnunarinnar. Þetta er talsverður viðsnúningur frá síðustu könnun fyrir fjórum árum, þegar enn mældist kynbundinn launamunur uppá fáein prósent, körlum í hag. Í þessu samhengi er vert að halda til haga að konur í blaðamannastétt eru nú að jafnaði meira menntaðar en karlarnir; af þeim kven-blaðamönnum sem þátt tóku í könnuninni að þessu sinni hafa nú nærri níu að hverjum tíu (88%) lokið háskólaprófi, álíka margar BA- og meistaraprófi. Hlutfall háskólamenntaðra karl-blaðamanna er allnokkru lægra, en þó nærri þrír af hverjum fjórum eða 73%.

Hlutfall háskólamenntaðra í blaðamannastéttinni hefur farið hraðvaxandi á síðustu árum, og eins og áðurnefndar tölur sýna er hún tvímælalaust orðin stétt háskólamenntaðra. Yfir heildina eru fleiri en fjórir af hverjum fimm (83%) með meiri menntun en stúdentspróf. 41% eru með BA/BS-próf og 36% með MA/MS-próf eða lengri menntun. Til samanburðar voru 77% með háskólapróf fyrir tíu árum (í launakönnuninni 2012) og einn af hverjum fjórum blaðamönnum með stúdentspróf eða minni menntun en það.

Lítil fylgni milli menntunar og launa

Enn er það þó svo að lítil fylgni er milli menntunar og launa. Eitt af því sem kom á óvart í niðurstöðum könnunarinnar nú er að sá hópur blaðamanna sem er með minnstu menntunina (meðal þeirra sem svöruðu könnuninni nú), þ.e. eingöngu lokið grunnskólaprófi, mælast með hæstu meðallaunin. Að þessum tiltölulega fámenna hópi undanskildum hækka laun við háskólapróf, þótt ekki mælist marktækur launaumunur milli þeirra sem hafa BA/BS-próf og þeirra sem hafa framhalds-háskólamenntun að baki (MA/MS eða meira).

Nokkuð meiri fylgni er mili starfsaldurs og hærri launa, þótt niðurstöðurnar sýni að laun blaðamanna standi í stað eftir að fyrstu 5-6 starfsárunum er náð. Þeir sem eru á starfsaldursbilinu 6-10 ár og bilinu þar á eftir, 11-15 ár, hafa þannig sömu meðallaun. Þeir sem hafa 16-20 ára starfsreynslu mælast þó með nokkru hærri laun, eða um hátt í 20 prósent hærri en starfsaldursbilið þar á undan. Þeir allrareynslumestu, með yfir 20 ára starfsaldur, lækka síðan í launum samanborið við þá sem hafa 16-20 ára reynslu, og hafa sambærileg laun og þeir sem eru á starfsaldursbilinu 6-15 ár. 

Súlurit

Meðalstarfsaldur mælist lágur

Gögnin sýna að meðalstarfsaldur í blaðamannastétt er lágur. Um það bil jafnmargir hafa unnið skemur en fimm ár í blaðamennsku og þeir sem hafa unnið í meira en tíu ár; hvor hópur um sig telur um þriðjung allra svarenda í könnuninni. Þetta endurspeglar þá miklu starfsmannaveltu sem einkennir ástandið á flestum vinnustöðum blaðamanna; hlutfall þeirra sem gera blaðamannsstarfið að sínu framtíðarstarfi er lágt. Enda hefur á liðnum árum verið talsverð umræða um atgerfisflótta úr stétt blaðamanna, en með honum tapast augljóslega mikilvæg reynsla og þekking auk þess sem kostnaður atvinnurekenda við að þjálfa sífellt upp nýtt starfsfólk er meiri en ella væri. Reynslumiklir blaðamenn hafa söðlað um og sótt í störf t.d. við almannatengsl, þar sem álag er minna, vinnutíminn styttri og stöðugri og launin hærri. Það ættu því að vera sameiginlegir hagsmunir blaðamanna og atvinnurekenda að fleiri sjái sér hag í að gera starfið að raunverulegu framtíðarstarfi – en með því þurfa kjör og starfsaðstæður reynslumeira fólks í stéttinni að batna. 

Misvísandi svör um vaktaálag

Meðal annarra atriða sem vekja umhugsun þegar niðurstöður úr launakönnuninni eru skoðaðar er að áberandi misvísandi svör er þar að finna við spurningu um hvort vaktaálag sé hluti af föstum launum – 25 prósent svarenda segja að svo sé, 56 prósent að svo sé ekki. Eftir að hafa rýnt í gögnin grunar okkur að margir svarendur gefi upp föst laun sem í raun innihalda vaktaálag, en virðast ekki gera sér grein fyrir að svo sé. Þetta er bagalegt þar sem þetta kann að skekkja samanburðinn við laun annarra stétta. Slíkur samanburður byggir á því að fyrir liggi upplýsingar um raunlaun fyrir dagvinnu, án vaktaálags. Samkvæmt niðurstöðunum er miðgildi heildarlauna allra svarenda 785 þúsund kr. Það þýðir að helmingur aðspurðra var með laun undir þeirri tölu og helmingur yfir. 75% mörkin voru 902 þúsund kr. og 25% mörkin 675 þúsund. Það segir okkur að fjórðungur aðspurðra í könnuninni er með laun undir þeim mörkum. Í meðfylgjandi töflu má sjá allar þessar tölulegu upplýsingar um launadreifinguna, bæði miðað við föst laun og heildarlaun. 

Skýr forgangsröðun krafna

Kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamningaviðræður mun að sjálfsögðu byggja að miklu leyti á niðurstöðum launakönnunarinnar. Forgangsröðun félagsmanna sem svöruðu könnuninni var líka býsna skýr: Út úr fjölvalsspurningu um hvaða atriði svarendur vildu leggja mesta áherslu á í næstu kjarasamningum kom þetta:

50,3% almennar launahækkanir

42,1% hækkun taxtalauna

31,5% lengra orlof

29,4% styttri vinnutíma

24,8% atvinnuöryggi

Þessi forgangsröðun mun að sjálfsögðu endurspeglast í kröfugerð BÍ í komandi kjarasamningaviðræðum, en margir aðrir þættir hafa áhrif á kröfugerðina. 

Tafla