Loftslagsmálablaðamennska á dagskrá

Fyrsti námskeiðshópur NJC í loftslagsmálablaðamennsku í húsnæði BÍ í dag. Sigrún Stefánsdóttir lengs…
Fyrsti námskeiðshópur NJC í loftslagsmálablaðamennsku í húsnæði BÍ í dag. Sigrún Stefánsdóttir lengst t.v. og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ lengt til hægri, en hún kom og ræddi við hópinn um stöðu blaðamennsku á Íslandi.

Námskeið í faglegri umfjöllun um loftslagsmál fer nú fram á vegum Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar í Reykjavík. Námskeiðið sækja sextán blaðamenn frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að tvöfalda námskeiðið, þannig að alls munu 32 blaðamenn sækja það. 

Umsjónarmenn námskeiðsins eru danski blaðamaðurinn Rasmus Thirup Beck (Klimajournalisterne) og Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún tjáði Press.is að námskeiðið sé byggt á tveimur þáttum, annars vegar þemavinnustofum þar sem farið er í saumana á gæðum í umhverfisblaðamennsku og hvernig megi bæta hana. Dæmi um þema er hvort hægt sé vera hvort tveggja í senn, aðgerðasinni í umhverfismálum og blaðamaður sem fjallar faglega um umhverfismál. Og: hvernig er best hægt að ná til almennings með umfjöllun um umhverfis- og loftslagsmál. 

Hins vegar beinist athyglin að því að kynnast því sem vel er gert á þessu sviði á Íslandi. Þannig verður t.a.m. farið í vettvangsheimsókn í Hellisheiðarvirkjun og fræðst þar um Carbfix-verkefnið. Einnig verður fjallað um bráðnun jökla hérlendis og farið að Sólheimajökli. Og til Vestmannaeyja þar sem rannsóknasetur á vegum Náttúrustofu Suðurlands verður heimsótt, meðal annars. 

Sigrún segir að fleiri en 50 blaðamenn hafi viljað skrá sig á námskeiðið nú í haust, en áhugann megi ef til vill að hluta til skýra með því að tímasetning þess tengist því að ráðstefna Hringborð norðurslóða - Arctic Circle Assembly - fer fram í Reykjavík í beinu framhaldi. Óháð því sé einfaldlega mikill áhugi á því meðal norrænna blaðamanna að hafa gott tilefni eins og þetta til að koma til Íslands. Vegna þessarar miklu eftirspurnar segir Sigrún að stefnt sé að því að halda strax næsta vor aftur námskeið hér á landi um svipað efni. 

Að lokum vildi Sigrún bera lof á það góða samstarf um námskeiðshaldið sem tekist hafi milli NJC og BÍ.