Má túlka yfirheyrslur lögreglu á blaðamönnum sem þrýsting

Yfirlýsing að loknum fundi forsætisnefndar Norrænu blaðamannasamtakanna, NJF, 11. janúar 2022

Norrænu blaðamannasamtökin, NJF, lýsa miklum áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur í nokkrum Norðurlandanna: Að lögreglan sé að kalla blaðamenn til yfirheyrslu eða skýrslutöku í málum sem tengjast meintum lekum á upplýsingum frá leyniþjónustu í viðkomandi löndum. Í nokkrum tilfellum hafa blaðamenn jafnvel verið sakaðir um að hafa aðstoðað við lekann.

Þetta á sér stað þrátt fyrir þá staðreynd að blaðamenn geta að sjálfsögðu ekki og munu ekki gefa upp heimildarmenn sína né hvað þeim fór á milli. Þessi staðreynd á að vera lögreglunni ljós, sem og leyniþjónustunni.

Innra starf leyniþjónust varðar almannahag og er því réttlætanlegt að blaðamenn fjalli um það.

Forsetar norrænu blaðamannafélaganna benda á að slíkt athæfi lögreglu megi túlka sem tilraun til þess að beita fréttamenn og fjölmiðla þrýstingi til þess að þeir forðist að flytja fréttir af mikilvægum málefnum á borð við leyniþjónustu.

Norrænu blaðamannasamtökin, NJF, eru samtök blaðamannafélaganna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Forsætisnefnd skipa forsetar og varaforsetar hvers blaðamannafélags.

 

Tine Johansen, forseti NJF, forseti Danska blaðamannafélagsins (DJ)
Dag Idar Tryggestad, forseti Norska blaðamannafélagsins (NJ)
Ulrika Hyllert, forseti Sænska blaðamannafélagsins (SJF)
Hanne Aho, forseti Finnska blaðamannafélagsins (UFJ)
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ)