Opinn málfundur um orðræðu um stjórnmálafólk

Auglýsing um fundinn frá aðstandendum hans.
Auglýsing um fundinn frá aðstandendum hans.

Undir yfirskriftinni „Ótímabært sáðlát, svikarar og frekjur. Má segja hvað sem er um stjórnmálafólk?“ boða Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til hádegisfundar um orðræðu og áreitni gagnvart stjórnmálafólki á morgun, þriðjudaginn 7. mars kl.12-13 í Odda 101, Háskóla Íslands. Athygli blaðamanna er vakin á fundinum, enda gegna fjölmiðlar miklu hlutverki í þessu sambandi. 

Í tilkynningu frá aðstandendum fundarins segir: 

„Reglulega er fjallað um að umræða gagnvart stjórnmálafólki sé óvægin og að stjórnmálafólk verði fyrir áreiti vegna starfs síns. Sumir segja að stjórnmálafólk verið bara að láta þetta yfir sig ganga, að þetta sé eðli starfs þeirra, á meðan aðrir benda á að þetta geti orðið til þess að kjörnir fulltrúar endist stutt í starfi.

Umfjöllunarefni hádegisfundarins verður um hvort að umræðan gagnvart stjórnmálafólki sé óvæginn og hvort að það sé í lagi að segja bara hvað sem er um stjórnmálafólk? Gestir fundarins verða þau Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur, Bríet B. Einarsdóttir, fjölmiðla- og boðskiptafræðingur, og Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor. Í kjölfarið mun Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður, taka til máls og [stýra umræðu] um efni fundarins. 

Fundurinn er opinn öllum, aðgangur er ókeypis og mun fara fram á íslensku.“