Morðið á Daphne Caruana Galizia

Maltverska blaðakonan Daphne Caruana Galizia vakti athygli fyrir fréttir sínar af spillingu  á Möltu…
Maltverska blaðakonan Daphne Caruana Galizia vakti athygli fyrir fréttir sínar af spillingu á Möltu. Morðið á henni er enn til rannsóknar en þrír menn hafa nú verið ákærðir fyrir þátttöku sína í morðinu.

Maltverska blaðakonan Daphne Caruana Galizia var myrt skammt frá heimili sínu þegar bíll hennar var sprengdur í loft upp 16. október árið 2017. Síðan má segja að kastljós heimsins hafi verið á rannsókninni á morði hennar sem nú hefur verið upplýst að nokkru leyti. Um leið hefur athyglin beinst að því sem Daphne var að rannsaka, spillingu, mútur, ætthygli og peningaþvætti, svo fátt eitt sé talið. Áður en sprengjan sprakk í bíl hennar höfðu henni borist margvíslegar hótanir. Heimilisihundurinn hafði verið drepinn og kveikt hafði verið í heimili hennar, án þess þó að Daphne hætti rannsóknum sínum. Í sinni síðustu færslu á síðuna, sem birtist skömmu áður en hún var myrt, sagði Daphne að ástandið væri mjög erfitt og hún teldi sig umkringda glæpamönnum.

Hafi verið ætlunin að koma í veg fyrir að það sem Daphne var að rannsaka kæmist í hámæli þá hefur það mistekist. Síðasta staðfesting þess birtist þegar nokkrar fréttaveitur tóku sig saman um að stofna The Daphne Project til að tryggja að áframhald yrði á þeim rannsóknum sem hún var með í gangi. Þar má nefna fréttastofur Reuters og Guardians auk þess sem CBC og fréttaþáttur þeirra 60 mínútur hefur fjallað nokkuð ítarlega um mál Daphne. Þá er ótalið það sem aðrir blaðamenn og fréttamiðlar hafa gert. Óhætt er að fullyrða að alþjóðasamfélaga blaða- og fjölmiðlamanna geri sitt besta til að halda nafni hennar á lofti og reka um leið á eftir því að eðlilega sé staðið að rannsókn á morði hennar. Um leið hefur sonur Daphne, Mathew Caruana Galizia, haldið áfram rannsóknum hennar og verið áberandi í fjölmiðlum þegar morðið á móður hans er til umfjöllunar. Þá hefur það ýtt á eftir rannsókninni að ári seinna var búið að myrða tvo aðra blaðamenn, þau Jan Kuciak í Slóvakíu og Viktoriu Marinovu í Búlgaríu. Enn er verið að rannsaka morðin á þeim.

Daphnie hafði verið að rannsaka spillingu á Möltu um margra ára skeið en undir það síðasta vakti blogg hennar, sem hún skrifaði undir heitinu Running Commentary, mesta athygli. Svo mjög að flestir á Möltu fylgdust rækilega með og hún fékk bæði morðhótanir og stefnur fyrir meiðyrði.

Fyrir skömmu voru þrír menn, þeir Vincent Muscat og bræðurnir Alfred og George Degiorgio, ákærðir fyrir morðið á Daphnie en þeir hafa verið í haldi síðan í desember 2017. Allir þrír hafa þeir hafnað ákærunni og ákæruvaldið hefur nú 20 mánuði til að ákveða hvenær réttarhöldin fara fram. Þrátt fyrir að þeir hafi nú verið ákærðir telja flestir að valdameiri menn hafi lagt á ráðin um morðið og því er enn unnið að rannsón málsins, meðal annars vegna þrýstings í gegnum The Daphne Project sem er nú stutt af 18 fréttastofum um allan heim.

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, var oft til umfjöllunar í greinum Daphnie en hann hefur fordæmt tilræðið og þrátt fyrir að margir efist um heilindi hans í málinu þá hefur hann setið af sér allar ásakanir um tengingu við það.