Nær helmingur auglýsingafjár úr landi

Í nýrri frétt á vef Hagstofunnar er greint frá því að tæplega helmingur þess fjár sem varið var til birtingar auglýsinga árið 2021 rann til erlendra aðila. Heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa á árinu námu fast að 22 milljörðum króna, þar af féllu 9,5 milljarðar króna í hlut útlendra miðla, eða 44%, á móti 12,3 milljörðum til innlendra miðla eða 54%. Eftir samdrátt í birtingu auglýsinga í kjölfar kórónuveirufaraldursins árið 2020 jukust auglýsingaútgjöld á síðasta ári um fimmtung og hafa þau ekki verið hærri síðan árið 2018 reiknað á föstu verðlagi. 

Í fréttinni segir ennfremur: 

„Undanfarin ár hafa greiðslur til erlendra aðila vegna birtingar auglýsinga aukist nær samfellt. Samkvæmt gögnum um þjónustuinnflutning hafa greiðslur til erlendra aðila fyrir birtingu auglýsinga og aðra markaðsstarfsemi nær tvöfaldast á tæpum áratug og þannig farið úr tæpum fimm milljörðum króna árið 2013 í tæpa 9,5 milljarða árið 2021 reiknað á föstu verðlagi.

Fastlega má gera ráð fyrir því að megnið af þeirri upphæð hafi verið varið til kaupa á auglýsingum á vef. Upplýsingar um skiptingu greiðslna til einstakra aðila í þjónustuviðskiptum eru ekki fyrirliggjandi en gera má ráð fyrir því að verulegur hluti þeirra fjármuna sem íslenskir auglýsendur verja til birtingar auglýsinga í útlendum miðlum renni til rekstraraðila Facebook og Google. Hlutur þessara tveggja aðila nam 95% í greiðslukortaviðskiptum sem tóku til um helmings af heildarþjónustuinnflutningi vegna auglýsinga og skyldrar starfsemi.

Eftir nokkurn samdrátt auglýsingatekna árið 2020 í kjölfar faraldursins jukust tekjur innlendra fjölmiðla og skyldrar starfsemi af auglýsingum um hátt í 14% árið 2021 eða úr 10.813 milljónum króna í 12.275 milljónir króna reiknað á föstu verðlagi. Á sama tíma jukust greiðslur til erlendra aðila um 34%. Auglýsingatekjur innlendra miðla árið 2021 voru sambærilegar við það sem þær voru á árunum 2011-2015 reiknað á föstu verðlagi.“  

Nánar má lesa um þetta, með skýringamyndum og tilheyrandi tölulegum gögnum, á vef Hagstofunnar