Norðurslóðir og varnarmál í brennidepli

Árósanámskeið Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar NJC í ár beinir sjónum að Norðurslóðum og öryggismálum. Það fer fram í Tromsø, Ósló og Brussel, en þátttakendur munu kafa dýpra í „hinn nýja norræna veruleika.“ Veruleika þar sem: 

– samskiptin við Rússland eru hrunin, eftir þriggja áratuga tilraunir til að byggja upp gagnkvæmt traust og samstarf 

– öll Norðurlönd eru brátt sameinuð sem norðurhluti Atlantshafsbandalagsins 

– aðflutningur fólks frá öðrum heimshlutum veldur skautun í hinum annars samstæðu samfélögum Norðurlanda 

– Norðurslóðir hafa öðlast miklu meiri þýðingu en áður. Hér eru öryggis-, efnahags-, umhverfis- og loftslagsmál samtvinnuð hagsmunaárekstrum stórvelda. Norðurskautsráðið lamaðist eftir innrás Rússa í Úkraínu en mun nú reyna að halda áfram starfsemi sinni án Rússa. 

Námskeiðið fer fram í tveimur lotum í haust, eins og hefðbundið er. Það fer fram á „skandinavísku.“ Umsóknarfrestur er til 1. ágúst. Námskeiðsgjaldið er 28.000 danskar krónur, sem samsvarar um 560.000 íslenskum. Félagar í BÍ geta sótt um styrk í Endurmenntunar- og háskólasjóð. Nánari upplýsingar á vef NJC