Norrænu blaðamannafélögin hóta úrsögn úr IFJ

Dominique Pradalié, forseti IFJ
Dominique Pradalié, forseti IFJ

Það eru landssamtök blaðamanna á Norðurlöndunum fimm - Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og FInnlandi, auk Eistlands, sem eru samstíga í þessari deilu við stjórnendur Alþjóðasamtaka blaðamanna, IFJ. Deilan á sér langan aðdraganda, en hún hófst strax árið 2008, þegar Rússar hernámu Abkasíu-hérað í Georgíu, stofnuðu þar héraðsfélag rússnesku blaðamannasamtakanna sem fékk sem slíkt aðild að IFJ, athugasemdalaust af hálfu stjórnenda IFJ. Sú ákvörðun IFJ varð síðan til þess að blaðamannasamtökin í Georgíu gengu úr IFJ. 

Síðan hefur það bætzt við, að stjórnendur IFJ hleyptu nýjum héraðsfélögum rússnesku blaðamannasamtakanna í hernumdum héruðum Úkraínu inn, rétt eins og Abkasíufélaginu áður. Ekki hefur verið brugðizt við kröfu norrænu félaganna um að rússnesku blaðamannasamtökunum yrði vísað úr IFJ. 

Forseti IFJ, hin franska Dominique Pradalié, átti fund með formönnum norrænu félaganna í Kaupmannahöfn í september til að ræða ágreininginn. Sá fundur skilaði litlu og er stefnt að öðrum slíkum sáttafundi í lok janúar nk. Norrænu félögin hafa komið því mjög skýrt til skila til stjórnenda IFJ að umræða sé nú í gangi innan félaganna um hugsanlega úrsögn úr IFJ, og margir félagar hvetji reyndar stjórnir félaganna til að láta verða af því. Sáttafundurinn sem nú er áformaður 27. janúar muni ráða úrslitum um þá ákvörðun. 

Í bréfi til stjórnar IFJ lýsa landsfélögin sex vonbrigðum með að hún skyldi hafa valið að verja aðgerðaleysið hvað varðar hin nýju héraðsfélög rússnesku samtakanna í Úkraínu með þeim rökum að það væri ekki hlutverk IFJ að úrskurða um hver eigi tilkall til yfirráða í umræddum héruðum. Að mati félaganna sex er þjóðaréttur kýrskýr um þetta efni. 

Stjórn BÍ hefur rætt málið og styður þessa nálgun. Verði ákveðið að tilkynna um úrsögn BÍ úr IFJ, um leið og hin landsfélögin fimm, tekur það sex mánuði fyrir úrsögnina að taka gildi. Í millitíðinni yrði málið borið upp á aðalfundi BÍ í vor, þar sem að óbreyttu kveða lög félagsins á um aðild að IFJ. Því þarf lagabreytingu til að úrsögn geti tekið gildi.