Ný vefsíða BÍ

Blaðamannafélag Íslands tekur í dag í notkun nýjan vef, en félagið hefur undanfarnar vikur verið að uppfæra vefsíðu sína og breyta henni nokkuð í leiðinni.  Er það von okkar að nýja síðan verði aðgengilegri, en sú gamla en samhliða hefur verið útbúin útgáfa sem hentar fyrir síma og spjaldtölvur.

Ýmis konar nýbreytni er á nýja vefnum en mesta breytingin er þó í útliti og hönnun sem nú er allt umtalsvert myndrænna en áður var. Á nýja vefnum er að finna mikilvægt atriði fyrir félagsmenn s.s. upplýsingar um kjarasamninga, styrki og orlofshús auk þess sem þar má líka finna gagnabanka sem hægt er að leita í, og er þar m.a. um að ræða hæstaréttardóma sem tengjast fjölmiðlum og svo Blaðamannaminnin sem fletta má upp í með því að faga undir flipann „Um félagið“ og síðan í „félagarnir“.

Áhugaverð nýjung er að stefnt er að því á næstunni að í þessu nýja kerfi verði hægt að vera með rafrænt félagaskráningarkerfi þannig að starfandi blaðamenn geta nú fengið blaðamannaskíteini sitt í símann, vilji þeir það frekar en að vera með hefðubundið skírteini. Skírteinin verða  með QR kóða sem hægt er að skanna inn og staðfesta hvort viðkomandi er í félaginu eða ekki. Jafnframt mun félagaskrá uppfærast sjálfkrafa á heimasíðunni.

Allt efni sem var á gamla vefnum á að vera aðgengilegt á þeim nýja, en gera verður ráð fyrir að einhverjir hnökrar komi upp á næstu dögum og jafnvel vikum enda umfangsmikið verk að flytja allt þetta gagnamagn á milli staða.  Ábendingar eru vel þegnar, og má senda þær á netfangið: birgirg@unak.is