Nýtt hefti Blaðamannsins komið út

Nýtt hefti Blaðamannsins, félagstíðinda BÍ, ætti að hafa borizt inn um lúguna hjá félagsmönnum milli jóla og nýárs. Þetta er 44. árgangur Blaðamannsins, en 19 mánuðir eru síðan síðasta prentaða hefti kom út í júní 2021. Öll fyrri hefti má nálgast á pdf-formi á Press.is, hér

Þetta nýjasta hefti er í ritstjórn Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns BÍ, en umsjón með útgáfunni að öðru leyti og prófarkalestur var í höndum Auðuns Arnórssonar, verkefnastjóra hjá félaginu. Þetta er með öðrum orðum fyrsta hefti Blaðamannsins í langan tíma sem ekki er í ritstjórn Birgis Guðmundssonar, og þakkar félagið honum kærlega fyrir vel unnin störf á þeim vettvangi á liðnum árum. 

Í þessu nýja hefti er að flestu leyti fylgt þeim hefðum sem skapazt hafa við útgáfuna í gegnum árin, s.s. hvað varðar uppröðun efnis og efnistök, en umbrot og prentun var í þetta sinn, rétt eins og verið hefur, í höndum Prentments/Odda á Akureyri (áður Ásprents). Blaðið er stútfullt af bitastæðum greinum meðal annars um endurskoðun siðareglna BÍ, um nýjustu launakönnunina sem gerð var í haust í fyrsta sinn síðan árið 2018, um málefni sem voru efst á baugi opinberrar umræðu um fagmál blaðamanna og fjölmiðla á liðnu ári og fjallað var um á málþingum sem félagið stóð að eða tók þátt í, um nýjar Evrópureglur til verndar fjölmiðlafrelsi, og fleira. Bæði formaður BÍ og varaformaður skrifa hvor sína forystugreinina í blaðið. Þar er einnig að finna all-ítarlegt yfirlit yfir fréttir af starfsemi félagsins á árinu 2022. Í samræmi við hefð er líka birt allt félagatal BÍ, uppfært. 

Útgáfumál félagsins eru til endurskoðunar hjá stjórn, en engin ákvörðun hefur enn verið tekin um breytingar. Er því eftir sem áður gert ráð fyrir að Blaðamaðurinn komi út á prenti einu sinni á ári, hið minnsta.