Ræða 3% veltuskatt á netrisana

Ár eftir ár hefur ósanngjörn samkeppni gegnsýrt hagkerfi, segir í nýju umræðuskjali.
Ár eftir ár hefur ósanngjörn samkeppni gegnsýrt hagkerfi, segir í nýju umræðuskjali.

Þær raddir gerast nú stöðugt háværari innan Evrópusambandsins og stofnanna þess að það verði með einhverjum hætti að jafna leikinn í samkeppni milli stafrænna miðla sem veita fréttaþjónustu og aðra þjónustu á netinu. Í þeirri umræðu beinist athyglin að sjálfsögðu að þeim fjölþjóðafyrirtækjum sem reka áhrifamestu samfélagsmiðla nútímans og stærstu leitarvélarnar. Fyrirtæki eins og Facebook og Google eru þar fremst í flokki. Er nú rætt um að setja allt að 3% veltuskatt á þessi fyrirtæki.

Þann 23. október síðastliðin áttu fulltrúar í efnahags- og skattanefnd Evrópuþingsins (ECON og TAX3 Committees) fund með Frakkanum Bruno Le Maire í Strassborg. Hann er ráðherra efnahags- og fjármála og ber meðal annars ábyrgð á stafræni skattlagningu. Ljóst þykir að núverandi skattareglur eigi ekki við um stafræna hagkerfið. Þær þurfi að endurskoða og bæta til að tryggja að netfyrirtæki taki á sig sanngjarna hlutdeild í skattkerfinu. Að loknum fundinum var gefið út umræðuskjal sem ætlað er að móta pólitík Evrópusambandsins í málinu. Flest bendir til þess að nú stjórnendur Evrópusambandsins grípi inní en 20 af 28 ríkjum þess styðja aðgerðir.

Í umræðuskjalinu segir: „Hingað til höfum við valið að horfa með blinda auganu á þetta ástand og ekki tekið með beinum hætti á því. Við höfum stutt við aðstæður þar sem mikill meirihluti fyrirtækja greiðir tekjuskatt sem eru 14 prósentum hærri en það sem netrisarnir greiða. Við höfum þola aðstæður þar sem þessi fyrirtæki nota persónuupplýsingar okkar til að byggja upp auð sinn án þess að endurgreiða nokkuð í staðinn.

Netrisarnir hafa nýtt sér þau mistök okkar að grípa ekki inní á sama tíma og þeir hafa verið að breyta heiminum. Við höfum ekki lagað regluverk okkar. Þeir hafa nýtt sér vanhæfni okkar til að vinna saman við að uppfæra skattareglur sem eru enn fastar í 20. öldinni, með skatta sem eru reiknaðar aðallega á grundvelli staðsetningar framleiðslueininganna. En nú verðum við að grípa til aðgerða. Málið er brýnt. Tæknileg vandamál ættu ekki að trufla athygli okkar og beina henni frá því sem er í raun í húfi. Ár eftir ár hefur ósanngjörn samkeppni gegnsýrt hagkerfi okkar, haft áhrif á nýsköpunargetu, grafið undan metnaði frumkvöðlastarfs okkar og dregið til sín opinbert fjármagn.“

Þeir sem styðja framtakið vonast til þess að Evrópuráðið samþykki það fyrir árslok. Ljóst er að slík skattlagning myndi hafa gríðarmikil áhrif.