Rússneskir blaðamenn þarfnast neyðarvegabréfsáritana

Vladimir Putin, forseti Rússlands. Lög hafa verið sett í Rússlandi sem banna umfjöllun fjölmiðla um …
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Lög hafa verið sett í Rússlandi sem banna umfjöllun fjölmiðla um innrás Rússa í Úkraínu. Einungis má tala um sérstaka hernaðaraðgerð en ekki stríð eða innrás og aðeins má skrifa fréttir upp úr upplýsingum sem koma frá varnarmálaráðuneyti landsins.

Blaðamannafélag Íslands sendi þremur ráðherrum í ríkisstjórn bréf fyrr í vikunni þar sem var óskað eftir því að ríkisstjórnin auðveldaði blaðamönnum frá Rússlandi og Belarus og fjölskyldum þeirra að fá vegabréfsáritun í því skyni að aðstoða þau við flótta úr landinu vegna ofsókna gegn blaðamönnum.

Bréfið er svohljóðandi:

Til:
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra,
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra

Afrit sent á aðstoðarmenn ráðherra

Ágætu forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra.

Alþjóðasamtök blaðamanna, IFJ, sem Blaðamannafélag Íslands er aðili að, hafa sent út ákall til aðildarfélaga sinna vegna stöðunnar í Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og nýrra laga í Rússlandi gegn tjáningarfrelsinu og frjálsri fjölmiðlun. Eins og þekkt er varðar það nú fimmtán ára fangelsi, fjársektir og lokun fjölmiðla að fjalla um stríðið í Úkraínu á annan hátt en rússnesk yfirvöld heimila.  

Mörg hundruð rússneskra blaðamanna hafa lýst yfir vilja til að yfirgefa Rússland, samkvæmt upplýsingum IFJ. Margir eru þegar á flótta í Helsinki í Finnlandi, Istanbúl í Tyrklandi og Tbilisi í Georgíu. Þeir geta fengið aðstoð frá öryggissjóði IFJ en samtökin óska eftir því við aðildarfélögin að biðla til yfirvalda í viðkomandi ríki að veita þeim blaðamönnum sem eru fastir í Georgíu og Istanbúl neyðarvegabréfsáritun.

Í síðustu viku stóðu IFJ ásamt Evrópusamtökum blaðamanna, EFJ, Evrópuráðið, CoE, Framkvæmdastjórn ESB og fleiri stofnunum fyrir ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi í Evrópu sem haldin var í Gdansk í Póllandi. Í ályktun ráðstefnunnar kom meðal annars fram ákall til stjórnvalda í ríkjum Evrópu að veita neyðarvegabréfsáritanir eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa rússneskum og hvítrússneskum blaðamönnum og fjölskyldum þeirra.

Blaðamannafélag Íslands fer þess því á leit við íslensk stjórnvöld að þau verði við þessu ákalli og veiti rússneskum og hvítrússneskum blaðamönnum neyðarvegabréfsáritun og/eða dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum. Þannig stuðli íslensk stjórnvöld að öryggi þeirra blaðamanna sem eru í lífshættu á flótta fyrir það eitt að reyna að upplýsa almenning um þá hryllilegu atburði sem eiga sér stað um þessar mundir í Úkraínu.

Með von um jákvæðar undirtektir,

Sigríður Dögg Auðunsdóttir,
formaður Blaðamannafélags Íslands