Samfélagssmiðurinn og varðhundurinn vegast á

Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.
Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.

Grein eftir Auðun Arnórsson um málþingið Framtíð blaðamennsku og svæðisbundin fjölmiðlun sem haldið var í HA 25. nóvember 2022. Greinin birtist í Blaðamanninum 1/2022. 

Föstudaginn 25. nóvember var haldið málþing við Háskólann á Akureyri undir yfirskriftinni „Framtíð blaðamennsku og svæðisbundin fjölmiðlun“. Að því stóðu, auk HA, Háskóli Íslands og Rannsóknahópur um framtíð blaðamennsku. Umræðan á málþinginu snerist meðal annars um það hvernig ólík hlutverk blaðamanna – annars vegar hlutverk „samfélagssmiðsins“ og hins vegar hlutverk „varðhundsins“ tækjust á. Þessi ólíku hlutverk hefðu mismunandi vægi eftir því hvort um er að ræða svæðisbundna miðla eða landsdekkandi. Hlutverk „samfélagssmiðsins“ vægi þyngra hjá litlu svæðisbundnu miðlunum.

Dagskrá málþingsins var þrískipt: Fyrir hlé fluttu nokkrir helztu sérfræðingar Íslands í fjölmiðlafræðum erindi sem flest fjölluðu um hina ýmsu lærdóma sem draga má af þátttöku íslenzkra blaðamanna í stórri alþjóðlegri viðhorfskönnun blaðamanna. Hún var nýlega lögð fyrir hér á landi í annað sinn.

Eftir hlé töluðu nokkrir reyndustu forsvarsmenn héraðsfréttamiðla landsins um reynslu sína af því að reka slíka miðla í gegnum ólgusjó síðustu ára, sem markast hafa af örum tæknibreytingum, gerbreyttu rekstrarumhverfi og ytri áföllum á borð við heimsfaraldur. Botninn í dagskrá málþingsins slógu pallborðsumræður, sem formaður BÍ tók þátt í.

Skal hér stiklað á stóru um það sem fram kom í erindum fræðafólksins sérstaklega, og umræðunum sem spunnust í lokin. Fundarstjóri var Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við HA.

Worlds of Journalism Study

Á vaðið reið Guðbjörg Hildur Kolbeins, sem kynnti Worlds of Journalism Study (WJS), alþjóðlega rannsókn á viðhorfum blaðamanna sem íslenskir blaðamenn hafa nú tekið þátt í tvisvar, fyrst árið 2012 og nú síðast í fyrra, árið 2021.

Næstur talaði Jón Gunnar Ólafsson, lektor við HÍ, um „staðbundna miðla og samfélagsmiðla“. Fókusinn í hans innleggi var fyrst og fremst á viðhorf blaðamanna til notkunar samfélagsmiðla sem vinnutækis. Þá sté í pontu Valgerður Jóhannsdóttir, umsjónarmaður meistaranáms í blaðamennsku við HÍ, og talaði um viðhorf íslenskra blaðamanna til eigin hlutverks eins og þau birtast í WJS-könnuninni í alþjóðlegum og norrænum samanburði.

Friðrik Þór Guðmundsson, sjálfstætt starfandi blaða- og fræðimaður, ræddir nánar um þróun viðhorfa íslenskra blaða‑ manna til eigin hlutverks og siðareglna blaðamanna (eins og nánar má lesa um í ítarlegri grein Friðriks hér í Blaðamanninum). Loks reifaði Birgir Guðmundsson, prófessor í fjölmiðlafræði við HA, svipmynd af stöðu staðbundinna fjölmiðla á Íslandi á grunni nýrra rannsókna hans og fleiri á því sviði.

Eftir hlé töluðu Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar og Austurgluggans, og Skapti Hallgrímsson, útgefandi og ritstjóri Akureyri.net. Ennfremur var María Björk Ingvadóttir, sjónvarpsstjóri N4, með innlegg á myndbandsformi sem hún tók upp þar sem hún var stödd í vinnuferð í Danmörku.

Í pallborði sátu: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, Valgerður Jóhannsdóttir, lektor við HÍ, Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta (Reykjanesbæ), og Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar og Austurgluggans.

„Klassísk gildi“ blaðamennskunnar eflast

Samhljómur var í erindum fræðimannanna fyrir hlé um það hver skýrt WJS-rannsóknin sýndi að „klassísk gildi“ blaða‑ mennskunnar hefðu eflzt í huga blaðamanna á síðustu árum, bæði hérlendis og erlendis. Til þessara klassísku gilda teljast m.a. aðhaldshlutverkið og „óhlutdrægi greinandinn“. Meðfylgjandi tafla úr erindi Valgerðar Jóhannsdóttur á málþinginu sýnir þessa þróun á viðhorfum íslenzkra blaðamanna glögglega. 

Tafla1

Í erindi Jóns Gunnars Ólafssonar kom skýrt fram hve íslenzkir blaðamenn teldu samfélagsmiðla og samskiptaforrit vera orðin mikilvæg vinnutæki fyrir alla sem störfuðu í blaðamennsku. Það gæti hreinlega enginn starfað sem blaðamaður á Íslandi nema vera t.d. á Facebook. Sítenging fólks í gegnum snjallsímana, og sú staðreynd að blaðamenn þyrftu að nota sinn persónulega aðgang að samfélagsmiðlum í vinnunni, ylli því líka að mörk vinnu og einkalífs yrðu æ óljós‑ ari; það reyndist blaðamönnum æ erfiðara að aðskilja frítíma og vinnutíma.

Meðal niðurstaðna sem Birgir Guðmundsson kynnti úr nýrri rannsókn á staðbundnum miðlum á Íslandi var að þeim hefði fjölgað mjög á síðustu árum (úr 20-25 í yfir 50), en væru jafnframt flestir mjög litlir og vanburðugir netmiðlar. Níu af hverjum tíu þessara miðla hafa færri en tvo starfsmenn á ritstjórn, og „63% forsvarsmanna miðla eru ósammála þeirri fullyrðingu að rekstur miðilsins standi undir sér (18,5% eru sammála)“. Og: Forsvarsmenn miðlanna telja það almennt hlutverk sitt að miðla upplýsingum og afþreyingu sem tengist svæðinu/ nærsamfélaginu, frekar en að veita aðhald og upplýsa um samfélagsleg álitamál.

Blaðamenn tali fyrir mikilvægi sínu

Í pallborðsumræðum sagði Sigríður Dögg, formaður BÍ, það vera áhugavert sem fram hafi komið í erindum fjölmiðlafræðinganna fyrir hlé að þessi stóra alþjóðlega könnun á viðhorfum blaðamanna hafi leitt í ljós að hefðbundin gildi blaðamennskunnar væru að styrkjast í huga blaðamanna, einnig hér á landi. Hún sagði ekki vanþörf á að blaðamenn leyfðu sér að reka svolítinn áróður fyrir eigin málstað; ef fjölmiðlafólk talaði ekki sjálft um mikilvægi fjölmiðla í íslenzku samfélagi þá gerði það enginn!

Valgerður Jóhannsdóttir tók þennan bolta frá formanni Blaðamannafélagsins og sagði það vera rétt að blaðamenn hefðu almennt verið feimnir við að tala um samfélagslegt mikilvægi sitt. Lýðræðishlutverk blaðamanna snerist ekki bara um það að veita valdhöfum aðhald, heldur einnig og ekki síður að skapa þá tilfinningu að það sé samfélag hérna. Þetta sé mjög sterkt element hjá staðbundnum miðlum, þar sem nándin er meiri og tengslin innan nærsamfélagsins. Rannsóknir í Bandaríkjunum hefðu sýnt að ef slíkir lókalmiðlar hverfa af vettvangi þá hefur það allskonar afleðingar. Samfélagsleg þátttaka fólks minnkar; samkenndin veikist. Hlutverk lókalmiðla sem „samfélagssmiða“ væri seint ofmetið.

Lókal miðlar meiri samfélagssmiðir

Birgir Guðmundsson, prófessor í fjölmiðlafræði við HA, brást við ummælum Sigríðar Daggar og Valgerðar með því að varpa því upp hvort þróunin væri nú sú að valdhafagagnrýni/ „afhjúpun“, með öðrum orðum „varðhundshlutverkið“, væri orðið sterkari þáttur í hlutverki blaðamanna, sem viðbragð við óábyrgum bloggurum og ófaglegum netmiðlum nútímans. Að sínu viti einkenndi þó eftir sem áður lókalmiðla að vera speglar lókalmannlífsins, þ.e. vera frekar „samfélagssmiðir“ en varðhundar.

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, sagði: „Samfélagið þarf að taka þátt í þessu með okkur!“ og varpaði inn dæmisögu: Á fyrstu árunum eftir að hann tók við rekstri og ritstjórn Víkurfrétta fyrir fjórum áratugum „vorum við ágengari“ – þannig hefðu þeir félagar sem sáu um ritstjórnarskrifin á þeim tíma „lent í nokkrum erfiðum málum“. Eftirminnilegt var t.d. þegar þeir skrifuðu um siðferði Grindvíkinga. „Við fengum svakalega gusu á móti okkur – menn söfnuðu hverju einasta eintaki blaðsins sem hafði verið dreift til Grindavíkur og skiluðu á ritstjórnina til okkar. Við lærðum af þessu. Þar sem nándin er mikil er erfitt að vera ágengur í gagnrýni. „Fólk vill ekki leiðindi frá okkur“. Sem þýddi samt ekki að ekki væri fjallað um erfið mál, eins og t.a.m. skipulagsmál og fjármál sveitarfélaganna. Rannsóknarblaðamennsku hefði svo lítill miðill hins vegar ekki burði í.

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurgluggans, bætti við að það ætti samt eins við um litla lókalmiðla og stærri miðla að þeir „væru ekki predikarar“, heldur legðu sig fram um að miðla á sem hlutlausastan hátt sem áreiðanlegustum upplýsingum, svo fólk hefði forsendur til að taka upplýsta ákvörðun sjálft um t.d. skipulagsmál í sínu sveitarfélagi. Hans miðill nyti þess að vera í eigu félags með dreifðu eignarhaldi – þar á meðal væri t.d. verkalýðsfélag. Hinn nýtilkomni rekstrarstuðn‑ ingur frá ríkinu hefði samt reynzt gríðarlega mikilvægur fyrir sinn miðil.

Faglegur stuðningur við minni miðla

Valgerður bætti við að stuðningur við litlu landsbyggðarmiðlana gæti líka verið í öðru formi en rekstrarstyrkja; hann gæti t.d. falist í ýmiss konar bakstuðningi, ráðgjöf, endurmenntunarmöguleikum, tæknilausnum o.fl. Spurningin væri bara hvaða aðilar legðu slíkan bakstuðning til. Svarið gæti kannski verið að finna í norskri fyrirmynd: Í Bergen hefði nú í allnokkur ár verið í rekstri svonefnt Mediehus (https://mhb. no/), þar sem saman væru komnir undir einu þaki nokkrir sjálfstæðir fjölmiðlar, auk nýsköpunarmiðstöðvar, vef- og hönnunarráðgjafar, tækniaðstoðar og annarri tengdri þjónustu.

Sigríður Dögg bætti við: „Við vitum öll að við búum í svolítið meðvirku samfélagi. Þess vegna er aðhaldshlutverkið svo mikilvægt! Blaðamenn þekkja það vel hvernig þeir lenda sífellt á vegg upplýsingafulltrúa, sem vilja stýra því hvaða upplýsingar rata út til almennings um starfsemina. Það er hlutverk blaðamanna að fylla upp í myndina, spyrja spurninga, grafa upp þær upplýsingar sem t.d. opinberir aðilar upplýsa annars ekki um!“

Kallar eftir nýrri samfélagssátt

Sigríður Dögg kallar eftir nýrri samfélagssátt um hlutverk fjölmiðla: „Við þurfum samfélag sem er með fjölmiðla sem geta staðið undir því að sinna þessu hlutverki. Við þurfum menntaða blaðamenn, sem hafa skýra sýn og skilning á því hlutverki sem blaðamenn eiga að gegna í samfélaginu. Við þurfum fræðslu og stuðning til að þetta gangi eftir, bæði almenningsfræðslu og símenntun fyrir blaðamenn. Við þurfum að breyta viðhorfum, breyta umræðunni. Þegar fjölmiðlar virka ekki, virkar ekki lýðræðið!“

Að lokum sagðist Sigríður Dögg taka það út úr umræðunni „að til að geta verið sá blaðamaður sem metnaðurinn stendur til, í aðstæðum nærsamfélagsins á hverjum stað, þarftu að geta leitað ráðgjafar, faglegs bakstuðnings á borð við þann sem ritstjórnir stærri miðla veita hverjum og einum blaða‑ manni sem þar starfar. En nærsamfélagið sjálft á líka að einhverju leyti að veita þennan bakstuðning; almenningur þarf líka að veita hinum voldugu aðhald en ekki eftirláta blaðamönnum einum það hlutverk.“