Sigríður Dögg: „Hlakka til að standa í stafni“

Sigríður Dögg Auðundsdóttir
Sigríður Dögg Auðundsdóttir

 „Ég er þakklát fyrir stuðninginn og hlakka til að standa í stafni þessa mikilvæga félags. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hve margir tóku þátt í kjörinu og sýnir raunverulegan áhuga félagsmanna á framtíð félagsins,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem kjörin hefur verið næsti formaður Blaðamannafélagsins. Meira en 56% þátttaka var í formannskjörinu sem lauk á miðnætti í gær, en slík  þátttaka er mjög sjaldgæf í kosningum í stéttarfélagi. 

„Ég vona að sú umræða og það samtal sem hófst í aðdraganda kosninganna haldi áfram og verði til þess að félagið og félagsmenn eflist sem aldrei fyrr. Ég skynja mikinn áhuga á því meðal félagsmanna að við vinnum saman í því að efla faglega umræðu í stéttinni meðal annars með það að markmiði að auka virðingu fyrir henni út á við og skilning á mikilvægi blaðamennsku fyrir lýðræðið í landinu. Við þurfum að láta heyrast hærra í okkur, vera djarfari í umræðu um fagið, standa saman og gera kröfur,“ segir Sigrður Dögg enn fremur.  

„Ég vona að sem allra flestir séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þess að gera félagið að því öfluga verkfæri sem það getur verið því félagið er ekkert nema félagarnir sem í því starfa. Ég mun því leggja ofurkapp á að fá sem flesta félagamenn inn í starfið og hvet alla þá sem hafa áhuga á að koma að starfi félagsins, til þess að hafa samband við mig,“ segir verðandi formaður BÍ.