Staðbundin dagblöð í vanda í Bandaríkjunum

Frá 2004 hafa hvorki fleiri né færri en 1800 staðbundin dagblöð hætt að koma út.
Frá 2004 hafa hvorki fleiri né færri en 1800 staðbundin dagblöð hætt að koma út.

Undanfarin misseri hefur færst í vöxt að eignarhald á dagblöðum í Bandaríkjunum hafi færst í hendurnar á vogunarsjóðum. Þetta á einkum við staðbundnari dagblöð sem oft eru kennd við tiltekna borg í Bandaríkjunum, sýslu eða jafnvel ríki. Gríðarlegt magn slíkra blaða kemur út í Bandaríkjunum og hafa þau í gegnum tíðina verið helsta uppspretta fólks þegar kemur af fréttum, bæði staðbundnum og á landsvísum. Ekki er langt síðan talið var að um 9000 blöð gætu fallið í þennan hóp. Versnandi rekstrarstaða og viðvarandi fjárhagserfiðleikar hafa gert það að verkum að vogunarsjóðir hafa séð sér tækifæri í að koma inn í eignarhald þessara blaða.

Nýleg skýrsla á vegum hugveitunnar „UNC’s Center for Innovation and Sustainability in Local Media“ reynir að rýna í stöðuna en undanfarið hefur verið talsvert fjallað um þetta vandamál á þeirra vegum eins og sjá má af ritunum; „The Loss of Local News: What It Means for Communities“ og „The Enduring Legacy of Our New Media Barons: How They Changed the News Landscape.“

Fyrri skýrslan fjallar um blöð er lagt hafa upp laupanna og er reynt að rýna í ástæður þess. Þar kemur farm að síðan 2004 hafa hvorki fleiri né færri en 1800 staðbundin dagblöð (e. local newspapers) hætt að koma út. Í öðrum tilvikum hefur fréttaþjónusta blaðanna verið skert svo mikið að nánast er hægt að segja að þau hafi hætt slíkri starfsemi. Í einhverjum tilvikum hafa aðrir miðlar, bæði ljósvaka- og netmiðlar, reynt að fylla í skarðið.