EFJ:Stafræn blaðamennska og ný rekstrarform

Í nýrri skýrslu sem Evrópusamband blaðamanna hefur gefið út og heitir „Stafræn blaðamennska og ný rekstrarform“ er farið yfir helstu strauma varðandi rekstrarform í stafrænni fréttamennsku samtímans. Það er farið allt frá Guardian í Bretlandi til frumkvöðlastarfsemi Mediapart í Frakklandi, og frá Svíþjóð til Spánar, en alls staðar eru að skjóta upp kollinum tilraunir með ný rekstrarform, þar sem svokallaðir frumkvöla-blaðamenn vinna bæði við að afla rekstrarfjár og við blaðamennskuna sjálfa. Þrátt fyrir þetta tvöfalda hlutverk – og e.t.v. vegna þess – hafa þessir blaðamenn náð að byggja upp traust á faglegri hágæða  blaðamennsku, þar sem gildi sem byggjast á hlutverki fjölmiðla sem fjórða valdsins, sem vaktar ábyrgð þeirra sem völdin hafa,eru höfð í hávegum.

Sérfræðingahópur EFJ  í stafrænni miðlun skilar af sér þessari skýrslu strax í kjölfar þess að Ráðherraráð Evrópuráðsins samþykkti ályktun um rekstrargrunn fjölmiðla á tímum stafrænnar miðlunar, en þar er meðal annars hvatt til þess að aðildarríki (þar á meðal Ísland!) „taki upp regluverk  sem tryggi og stuðli að gæðum í blaðamennsku á sama tíma og ekki sé þrengt að  rekstri- og ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðlagátta.“

Skýrslan um stafræna blaðamennsku og ný rekstrarform er afrakstur vinnu sérfræðingahóps EFJ en um skrifin sjálf sá Andreas K. Bittner og þessir aðilar ásamt stýrinefnd um málaflokkinn hjá EFJ benda á að rannsóknarblaðamennska sé í raun hvatinn að baki þessari tilraunastarfsemi um ný rekstrarform. Hugmyndin sé að reyna að vernda ritstjórnarlega starfsemi frá áhrifum sérhagsmuna og halda þannig sem allra mestu sjálfstæði. Þetta þýðir hins vegar að mikið traust er lagt á framlag lesendanna sjálfra og auk þess er rofinn sá eldveggur sem alla jafna þykir nauðsynlegur milli ritstjórnarstarfseminnar og fjáröflunarinnar.  En á það er líka bent að tilraunir af þessu tagi geti vissulega mistekist og staðan sé að mörgu leyti mjög snúin.  „ Það er ögrandi verkefni að geta lifað af því að vera blaðamaður og vera samtímis trúverðugur og gagnsær og ástunda gæða blaðamennsku,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig komið inn á hlutverk samtaka blaðamanna og hvort og hvernig þau geti stutt við faglega blaðamennsku.

Sjá skýrsluna í heild hér