Sýning um feril Einars Hjörleifssonar Kvaran

Í dag var opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni þar sem fjallað er um feril Einars Hjörleifssonar Kvaran og sýnd ýmis gögn úr fórum hans, sem varðveitt hafa verið hjá afkomendum Einars en sem verða við það tækifæri afhent Þjóðarbókhlöðunni til varðveislu. Einar var einn af stofnendum Blaðamannafélags Íslands og var í hópi þ eirra fyrstu Íslendinga sem urðu blaðamenn að aðalstarfi. Hátíðardagskrá í tilefni af því að 150 ár voru liðin frá fæðingu Einars varhaldinn í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi, eins og sjá má hér neðar á síðunni. Þar voru flutt nokkur erindi um hinar ýmsu hliðar Einars Hjörleifssonar, m.a. fluttti Birgir Guðmundsson blaðamaður og lektor við Háskólann á Akureyri erindi fyrir hönd Blaðamannafélagsins um blaðamanninn Einar Hjörleifsson. Erindi Birgis fer hér á eftir:

Erindi flutt á málþinginu "Skáldið og brautryðjandinn", í Borgarleikhúsinu 6. desember 2009 í tilefni af því að 150 ár voru liðin frá fæðingu Einars Hjörleifssonar Kvaran:

Birgir Guðmundsson:

Blaðamaðurinn Einar Hjörleifsson (Kvaran)


Ágætu hátíðargestir.
Það er mér sönn ánægja að vera hér sem fulltrúi Blaðamannafélags Íslands og segja nokkur orð um blaðamanninn Einar Hjörleifsson, síðar Kvaran.
Segja má að hinn eiginlegi blaðamennskuferill Einars Hjörleifssonar spanni 20 ára tímabil, frá 1886- 1906. Á þessum tíma er meginatvinna Einars  blaðamennska þó hann hafi þá, eins og raunar alltaf, haft mörg járn í eldinum. Þessi tími skiptir miklu máli bæði fyrir mótun og lífssýn Einars sjálfs og fyrir þróun og mótun íslenskrar blaðamennsku.  En áður en ég vík að þeim þáttum í  störfum Einars  sem hafa skipt mestu í ljósi sögunnar er rétt að stikla á stóru í fjölbreyttum blaðamannaferli Einars og byrja á örstuttu yfirliti: Hann byrjar sem meðritstjóri og stofnandi að heimskringlu í Winnipeg 1886 en hætti í árslok 1886. Verður svo einn af stofnendum Lögbergs sem kemur út í janúar 1888.
Hann kemur heim til að verða meðritstjóri að Ísafold 1895 og er þar til 1901, þá flyst hann norður í land til að verða ritstjóri og stofnandi Norðurlands og er þar frá 1901 -1904.  Síðan flyst hann suður aftur 1904 og verður eigandi og ritstjóri Fjallkonunnar í tvö ár frá 1904-1906.  Þar með má segja að blaðamennskuferli Einars ljúki,  en fyrir utan þetta var hann ritstjóri Sunnanfara 1900-1901, Skírnis 1908-1909, meðritstjóri Nýju Iðunnar 1915-1916 og síðan ritstjóri Morguns, tímarits um andleg mál frá stofnun þess 1920 og til dauðadags


***
Blaðamannsferill Einars hefst semsé í Winnipeg þar sem hann kemur að því ásamt  fleirum að taka þátt í því að stofna nýtt fréttablað fyrir Íslendinga  árið 1886. Þetta var blaðið Heimskringla og er Einar þar meðritstjóri. Hann er raunar stutt við blaðið og hættir fyrir árslok þetta sama ár. Rétt er að staldra aðeins við þetta upphaf, því það er að mörgu leyti táknrænt og lýsandi fyrir það hvers vegna og á hvaða forsendum Einar „lendir í blaðamennsku“, ef svo má að orði komast.  Strax og hann kom vestur í Íslendingasamfélagið í Kanada lét Einar að sér kveða, þótt hann ætti í raun lítið undir sér í veraldlegum efnum. Að mörgu leyti má segja að Einar og fjölskylda hans hafi verið í hlutverki smælingjans, fólks sem tímabundið þurfti á samhjálp samfélagsins að halda, sérstaklega eftir að Einar lendir í mikum persónulegum áföllum og sorg.  Samfélagið þarna  var í mótun  - þetta var  landnemasamfélag – þar sem tækifæri manna og staða einstaklingsins var kannski síður mörkuð eða mótuð af ætt uppruna og félagslegri stöðu en tíðkaðist hér heima. En áhugi Einars á listum og menningu og ýmsu því sem vakti áhuga í samfélaginu og færni hans í að orða og tjá hluti höfðu vakið athygli á honum.   Hann sýndi  þá þegar að hann átti auðvelt með að fylla félagsheimili og fundasali af fólki sem var tilbúið til að koma og jafnvel borga fyrir að hlusta á hann tala og flytja fyrirlestra  um alvörumál. Það má kannski segja að slíkir fyrirlestrar hafi verið ákveðin tegund af fjölmiðlun, og augljóslega var slíkur maður eftirsóknarverður fyrir prentmiðil, blað, sem vill ná mikilli útbreiðslu. Og það er einmitt af þessum ástæðum sem Einar var fenginn til að vera með í stofnun Heimskringlu. Það var ekki þannig að hann  hafi sótt um vinnu á nýjum fjölmiðli sem blaðamaður, heldur var það fjölmiðillinn sem sótti hann. Einar dvaldi hins vegar stutt á Heimskringlu sem má rekja til ákveðinna flokkadrátta og fylkinga í Íslenska samfélaginu og einnig þess auðvitað, að Einar var e.t.v full stór persóna fyrir það hlutverk sem samstarfsmenn hans þarna ætluðu honum.
En næsta skrefið á ferlinum er einmitt eins konar endurtekning á því fyrsta, því það eru öfl í Íslendingasamfélaginu sem vilja og eru tilbúin til að fjárfesta í nýju blaði með Einar við stýrið. Að það væri m.ö.o. nauðsynlegt þjóðþrifaverk að koma af stað blaði handa Einari – svo kraftar hans og snilli væru virkjuð. Samferðamönnum þótti ástæða til að virkja þetta stórfljót í stað þess að láta það renna óbeislað til sjávar, ef svo má segja. Og Einar verður ritstjóri og einn af stofnendum Lögbergs sem hefur göngu sína í janúar 1888, en undirbúningur hafði staðið yfir frá því fyrir jólin 1887.   Einar var síðan með Lögberg næstu átta árin eða svo og gerði það blað að þýðingarmiklu þjóðfélagsafli  - ekki bara í samfélagi Vestur-Íslendinga í Kanada heldur líka samfélagsumræðunni á Íslandi.  Lögberg kallaðist nefnilega oft sterklega á við blöðin hér heima, enda iðulega verið að fjalla um mál sem tengdust bæði Íslendingum á Íslandi og íslenska þjóðarbrotinu fyrir vestan. 


***

Það var í Kanada sem blaðamaðurinn Einar Hjörleifsson mótast og það er þar sem hann lærir grundvallaratriði blaðaútgáfunnar og kynnist líka öllum hliðum hinnar daglegu blaðamennsku. Í yfirgnæfandi stærstum hluta af því sem skrifað hefur verið um  Einar, þá er verið að fjalla um hann sem skáld og rithöfund. Þegar kemur að því að fjalla um hvað hann skrifaði um sem blaðamaður, þá er það sama uppi á teningnum, það er horft til þess að hann var feiknalega duglegur að ritrýna og skrifa um bókmenntir og listir.  Það var vissulega mikilvægur hluti af hans starfi, og það sem hann alla jafna hafði mestan áhuga á og að sumu leyti má segja að hann hafi fyrst og fremst verið menningarblaðamaður.  Hins vegar felur blaðamennskan í sér svo miklu fleiri þætti sem Einar sjóaðist í og tileinkaði sér sem ritstjóri. Á blaði þarf að segja fréttir af stórum hlutum og smáum, það þarf að sinna þjónustuupplýsingum og það þarf að hafa  vakandi eyra og auga fyrir umkvörtunum og lofi lesenda, sorgum þeirra og sigrum.  Þessi Kanadaár voru því magnaður blaðamannaskóli fyrir Einar,  hann var í  landnemasamfélagi þar sem fjölþjóðlegir vindar blésu bæði hvað varðar rekstur og hugmyndafræði blaða, og varðandi þjóðfélagsmál almennt.
Persónulega tel ég líklegt að ýmis höfundareinkenni á rithöfundinum Einari megi rekja til þess hversu nátengdur hann var í gegnum blaðamennskuna lífi almennings í landnemasamfélaginu fyrir vestan og þurfti að temja sér að hlusta eftir hjartslætti og sjónarmiðum almennings.  Það má í það minnsta hugsa sér það sem viðbótarskýringu við það sem Halldór Laxness sagði  í ritgerð um rithöfundinn Einar árið 1938, árið sem Einar féll frá. Þá sagði Laxness:  „Þokki Einars H. Kvaran á smælingjanum virðist hafa átt sér mjög djúpar rætur í eðlisfari hans. Bestu mannlýsingar hans eru á fátækum umkomuleysingjum, og þessi staðreynd virðist benda til þess að inst inn hafi Einar H. Kvaran litið svo á að maðurinn væri í eðli sínu fátækur og umkomulaus smælingi í alheimilum.“  (Af skáldum bls. 60)
Í það minnsta held ég að óhætt sé að segja að blaðamennskan hafi átt þátt í að móta ákveðna manngildissýn hjá Einari Hjörleifssyni.


***

Þegar Einar kemur síðan heim til að verða meðritstjóri að Ísafold 1895 er hann orðinn þroskaður og landsþekktur blaðamaður. Björn Jónsson í Ísafold  brá á það ráð að fá Einar til liðs við sig til þess að efla blaðið og styrkja og augljóst að hann sá að í því fólust mikil sóknarfæri fyrir Ísafold að  virkja krafta og hæfileika Einars í hennar þágu. Skipti þá engu þótt þeir Björn og Einar hefðu átt í talsverðum deilum áður. Kemur hér aftur upp minnið um að fólki fannst blaðamannshæfileikar Einars slíkir, að það yrði að vera til vettvangur þar sem þeir fengju notið sín.  Samstarf Einars og Björns á Ísafold var með eindæmum gott og þeir verða nánir vinir og samherjar.   Einar  setti hins vegar strax mark sitt á blaðið t.d. með því að skrifa þingfréttir þar sem hann kvað hiklaust upp dóma yfir þingmönnum og var þetta af samtímamönnum, s.s. Hannesi Þorsteinssyni á Þóðólfi, kallað „amerískur ritháttur“.  Stíllinn var frábrugðinn því sem áður þekktist og hafa þeir fjandvinir Jón Ólafsson, ritstjóri og Alaskafari og Einar H. Kvaran, sem báðir störfuðu lengi vestan hafs í blaðamennsku og voru m.a. samtímist um skeið í Winnipeg, oft verið sagðir bera ábyrgð  á hvössum og beinskeyttum, jafnvel persónulegum stíl sem tíðkaðist í blöðunum um og upp úr aldamótum.
En stjórnmálin á Íslandi voru í örri þróun og þótt ýmsir hafi kvartað undan hinum „ameríska rithætti“, sagði  Einar sjálfur í viðtali við Lesbók Morgunblaðsins í júní 1937 að þegar hann hafi komið frá Ameríku   hafi honum fundist það „ákaflega leiðinlegt að vera hjer blaðamaður“.  Stjórnmálin hafi verið litlaus og fyrirsjáanleg. Hins vegar, segir Einar síðan í viðtalinu breyttist þetta:   „Það var ekki fyrr en Valtýskan kom til sögunnar, sem lifnaði hjer yfir stjórnmálunum.“ Það má líka segja að  Valtýingurinn Einar – og auðvitað Björn Jónsson  -  hafi verið í lykilhlutverki þegar íslensk stjórnmál klofna upp í fylkingar Valtýinga og heimastjórnarmanna.  Það  sem gerist á þessum tíma er í raun það að blöðin breytast frá því að vera einkamálgögn ritstjóranna - eða blaðakónganna eins og Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur  hefur kallað ritstjóra og eigendur blaðanna á síðari hluta 19. aldrar  -   yfir í það að verða flokksblöð. Þau urðu blöð Valtýinga annars vegar og blöð heimastjórnarmanna hins vegar.  Blaðið Norðurland, sem byrjaði að koma út á Akureyri 1901 og  Einar fer norður til að ritstýra er í raun stofnað sem flokksblað Valtýinga og er þannig eitt af fyrstu blöðunum,  jafnvel það fyrsta, sem stofnað er sem hreinræktað flokksblað. (Guðjón Friðriksson).  Og þar er ritstjórinn, Einar Hjörleifsson.
En  Norðurland undir stjórn Einars, verður að mikilvægu almennu frétta og menningarblaði og öllum virðist bera saman um að það, að virkja krafta og hæfileika Einars í blaðinu hafi verið það sem gaf því möguleika, gerði það áhugavert  og skapaði rekstrargrundvöll. Í fyrsta tölublaðinu ávarpar Einar lesendur og bendir á að blaðið eigi að vera almenns eðlis og fjalla um Norðurland og er það allt í anda sígildrar blaðamennsku. En flokkshollustan kemur einnig fram þarna því hann segir hann líka á einum stað:  „Blöðunum er ekki eingöngu ætlað að færa lesendum sínum fréttir; þau eiga jafnframt að ræða mál þjóðarinnar.“ (Norðurland 1. okt.1901)
Stjórnmál Einars hafa þegar hér er komið sögu tekið á sig ákveðna flokksmynd, og er hann þar algerlega samferða þróuninni og í raun mikilvægur gerandi í þeirri breytingu sem þarna varð á blaðamennskunni. Þegar hann svo flyst suður til að taka við Fjallkonunni er  pólitískir undirtónar í því líka og Fjallkonan verður hjá Einari  eins konar framhald af því sem á undan var gengið.  Þegar hann hættir með Fjallkonuna 1906 má svo segja að  hinum eiginlega blaðamennskuferli hans ljúkiog önnur viðfangsefni taki við.


***

Stundum er sagt að blaðamennska sé ekki starf heldur lífstíll, og það átti sannarlega við um  Einar Hjörleifsson. Í gegnum blaðamennskuárin bæði vestan hafs og á Íslandi og þau nánu tengsl sem Einar þannig hafði við almenning og lesendur sína, mótuðust lífsviðhorf og höfundareinkenni, sem Halldór Laxness  hefur sagt einkennast af virðingu fyrir manngildinu. Flestir sem með einhverjum hætti fjalla um blaðamanninn Einar Hjörleifsson nefnda sérstaklega málsnilld hans og ritfærni. Þar er arfleifð hans sem blaðamanns e.t.v  hvað sterkust. Þannig segir t.d. Þorsteinn Gíslason þáverandi ritstjóri Lögréttu árið 1932 í grein um íslenska blaðamennsku: „Einar hafði lengi mikil áhrif í íslenskri blaðamennsku og er einn hinna ritfimustu og fjölhæfustu manna sem unnið hafa á því sviði.“  Halldór Kristjánsson skrifar grein um blaðamennsku í Blaðamannabókina 1948 og gerir þar að umtalsefni málfar og ritfærni íslenskra blaðamanna. Telur hann að þessu hafi farið mikið aftur og notar sem viðmið eins konar gullöld þegar helstu skáld og rithöfundar landsins unnu fyrir sér sem blaðamenn og skrifuðu góðan og hljómfagran íslenskan texta. Ekki er að efa að þarna er hann að vísa til Einars og fleiri hans líka, sem í áratugi hafa verið notaðir sem viðmið um það hvað sér hægt að gera vel í þessum efnum.


***

Blaðamennskuáratugir Einars spanna einnig mikilvægt tímabil í sögu íslenskrar blaðamennsku, eða frá því að blöð voru fyrst og síðast einkamálgögn ritstjóra sinna, sem jafnframt voru eigendur, yfir í það tímabil þegar flokkadrættir í landsmálum höfðu náð undirtökum í blaðaútgáfunni. Þetta er líka það tímabil þegar segja má að til verði sérstök blaðamannastétt sem lætur að sér kveða í samfélaginu.  Á báðum þessum sviðum var Einar lykilmaður. Hann var stofnandi og ritstjóri blaða í Winnipeg sem hann mótaði meira og minna samkvæmt eigin höfði og fékk menn til samstarfs við sig á grundvelli síns persónulega orðspors og vegna þess að fólk trúði á blaðamennskuhæfileika hans. Þegar hann kom aftur heim 1895 og gerist meðritstjóri hjá Birni Jónssyni á Ísafold er það upphaflega ekki vegna flokkstengsla eða skoðana, þótt bæði Einar og Björn ættu síðan eftir að taka það skref og fylkja sér og blöðum sínum í raðir Valýtinga.   Tvennt má öðru fremur segja að hafi  stuðlað að því að gera blaðamannastéttina að sérstakri stétt og afli í þjóðfélaginu á árunum í kringum aldamótin og kemur Einar við sögu í báðum tilfellum.
Það fyrra sem stuðlaði að afmörkun blaðamannastéttarinnar, er stofnun Blaðamannafélags Íslands árið 1897, en þar var Einar einn af sjö stofnfélögum.  Nefna má að annað af helstu málum félagsins í upphafi var að   koma á samræmdum starfsetningarreglum í landinu og var m.a. gefin út að tilhlutan félagsins Stafsetningarorðabók árið 1900 eftir Björn Jónsson félaga Einars. Einar Hjörleifsson lék mikilvægt hlutverk í umræðunni um starfsetninguna sem fylgdi í kjölfarið og þar með umræðunni og meðvitundinni um tungumálið á mikilvægum tíma sjálfstæðisbaráttunnar.
Hitt atriðið sem stuðlaði að því að afmarka blaðamenn sem sérstaka stétt var Blaðamannaávarpið svokallaða árið 1906. Þar lék Einar stórt hlutverk og sumir segja jafnvel að hann hafi verið í aðalhlutverki og sé sá sem samdi texta ávarpsins.  Blaðamannaávarpið hafði mikil og afgerandi áhrif í stjórnmálaumræðu samtímans og var talið mikilvægt innlegg í umræðuna um sjálfstæðisbaráttuna. Það afmarkaði líka blaðamenn sem mikilvæga þátttakendur í framvindu sjálfstæðisbaráttunnar og Íslandssögunnar.  
Þannig var Einar Hjörleifsson á margan hátt frumkvöðull í þróun blaðamennsku á íslandi, maður sem sópaði að og lét til sín taka í stormum samtíðarinnar. Það hefur verið  mér sérstök ánægja að hafa fengið að koma hér og heiðra minningu hans. Mig langar til að óska ættingjum og afkomendunum - og raunar okkur ölum  - til hamingju með daginn.

Takk fyrir.