Þörf á samfélagssátt um fjölmiðla

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, á málþingi um styrki til einkarekinna…
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, á málþingi um styrki til einkarekinna fjölmiðla

Fjölmiðlar standa nú á krossgötum og þar með samfélagið og lýðræðisleg umræða. Allt að því helmingur alls auglýsingafjár fer nú til erlendra tæknirisa á borð við Facebook og Google og afleiðingarnar eru taprekstur, uppsagnir, samdráttur, hagræðing. Og það bitnar á lýðræðinu. Því hvernig er hægt að tryggja að fjölmiðlar veiti nauðsynlegt aðhald og upplýsi þegar þegar fjöldi þeirra sem starfar í fjölmiðlum er einungis þriðjungur af því sem hann var fyrir tæpum áratug.

Og fækkunin hefur verið mikil að undanförnu. Frá árinu 2018 og til loka árs 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum um tæplega helming. Nú starfa um 800 manns við fjölmiðlun á Íslandi. Og þótt þetta séu ekki tölur yfir starfandi blaðamenn - heldur fjölda þeirra sem starfa við fjölmiðlun - þá hefur blaðamönnum fækkað að sama skapi. Og færri blaðamenn þýðir færri hendur til að vinna sömu verk því ekki fækkar fréttunum sem þarf að skrifa, símtölunum sem þarf að hringja, gögnunum sem þarf að óska eftir og rýna í, spurningunum sem þarf að spyrja.

Fjölmiðlar eru grundvallarforsenda heilbrigðs lýðræðis

Fjölmiðlar móta, þroska og binda saman samfélagið okkar. Þegar frjálsir fjölmiðlar eru öflugir vinna þeir sem grundvallarforsenda heilbrigðs lýðræðis og gera almenningi kleift að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á upplýstan hátt. Frjálsir fjölmiðlar veita aðhald og spila lykilhlutverk í því að hafa áhrif á valddreifingu í samfélaginu með því að spyrja gagnrýnna spurninga og krefjast upplýsinga þegar þess er þörf.

Þessi lýsing á hlutverki og stöðu fjölmiðla í samfélaginu hljómar nánast orðrétt upp úr áskorun Blaðamannafélagsins til stjórnmálaflokka sem félagið sendi frá sér í aðdraganda kosninga.

Kjörorð áskorunarinnar var: frjálsir fjölmiðlar - ljósberar lýðræðis. Markmiðið var að vekja stjórnmálaflokka til vitundar um mikilvægi fjölmiðla og hlutverk og fá þá sem hér öllu stjórna til þess að taka af skarið og standa með fjölmiðlum - að setja orð á það hve staðan er ógnvænleg og skapa samstöðu um aðgerðir. Við þurfum samfélagssátt um fjölmiðla.

Virðingu fyrir fjölmiðlum skortir

Því sannleikurinn er sá að íslenskt samfélag ber ekki nægilega virðingu fyrir fjölmiðlum og hlutverki þeirra. Við sem samfélag, áttum okkur ekki á því að án öflugra, frjálsra fjölmiðla er ekkert lýðræði. Við tökum lýðræðinu sem sjálfsögðum hlut – en erum samt ekki til í að standa með fjölmiðlum sem gera það að verkum að lýðræðið fái þrifist.

Það heyrist vart í þeim stjórnmálamanni sem stendur með fjölmiðlum þegar á reynir – nema kannski þegar það hentar pólitískt. Það er auðveldara að sitja hjá og þegja en synda gegn straumnum og verða úthrópaður fyrir skoðanir sem falla ekki í kramið hjá þeim sem eiga að vera samherjar þínir í pólitík.

Við vitum öll hvaða mótlæti ráðherrann sem hér situr mætti þegar hún, fyrst allra ráðherra, lagði til styrkveitingar til einkarekinna miðla. Gagnrýnin var ekki sett fram í nafni lýðræðis, tjáningarfrelsis eða sterkara samfélags. Heldur á grunni frjálshyggju, andstöðu við ríkisútvarp og ofurtrú á markaðshugsjóninni.

Við getum sjálfsagt sjálfum okkur um kennt, blaðamenn, fjölmiðlar og aðrir ljósberar lýðræðisins. Við brugðumst þegar að því kom að við ættum að tala máli okkar – tala máli lýðræðisins, samfélagsins, almennings - þegar úrtöluraddirnar hljómuðu hvað hæst. Við stóðum ekki með blaðamennskunni og lýðræðinu þegar við þögðum þunnu hljóði. Við hefðum átt að hrópa. Við þurfum að hrópa. Því enginn annar gerir það og það er svo margt í húfi.

Kannski er ástæðan fyrir þessu skilningsleysi og þessu virðingaleysi sú að við höfum ekki mjög lengi átt fjölmiðla sem eru sannarlega frjálsir og óháðir. Það var í raun ekki fyrr en á síðustu áratugum síðustu aldar sem flokksgreipar slepptu höndunum af fjölmiðlunum - reyndar aðeins til þess að annars konar vald greipar læstu í suma þeirra klónum.

Íslenskir fjölmiðlar ekki sjálfbærir

Það var ekki í ýkja mörg ár þegar rekstur frjálsra, einkarekinna fjölmiðla gekk vel. Mörg hundruð milljóna taprekstur ár eftir ár hefur verið veruleikinn hjá stóru miðlunum - jafnvel áður en stóru alþjóðlegu tæknirisarnir fóru að bíta fyrir alvöru. Síðan hefur bara hallað enn meira undan fæti.

Ég held að það sé óhætt að halda því fram að íslenskur fjölmiðlamarkaður sé ekki sjálfbær. Það er óraunhæft og í raun ómögulegt að reka hér fjölmiðla á hreinum markaðsforsendum. Til þess er markaðurinn of smár, tungumálið of lítið og lýðræðið of mikilvægt.

Þetta vita Danir. Því tilvitnunin hér í upphafi er úr nýrri fjölmiðlastefnu dönsku ríkisstjórnarinnar sem út kom fyrir helgi. Og það eru ekki bara Danir sem líta á stuðning við fjölmiðla sem stuðning við lýðræðið, heldur Norðmenn, Svíar og Finnar líka. Þeir búa í fámennum löndum með tungumál sem fáir tala. Samt eru það margfalt fleiri en tala íslensku eða búa á Íslandi. Styrkir til einkarekinna fjölmiðla hafa tíðkast á Norðurlöndunum að undanskildu Íslandi í áratugi. Markmiðið og uppleggið er og hefur alltaf verið - að styrkir til fjölmiðla jafngildi styrkjum til lýðræðisins. Árangurinn er sá að þetta eru einmitt þau lönd sem raða sér í fjögur efstu sætin á lista Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi. Ísland er í sextánda sæti.

En lýðræðið er síður en svo sjálfsagt. Við þurfum að virða það og hlúa að því til að viðhalda því. Og hið sama gildir um fjölmiðlana.

Þurfum styrki áfram - og meira til

Ég trúi því og treysti að við séum komin á þann stað í umræðunni að í stað þess að deila um hvort einkareknir fjölmiðlar þurfi opinbera styrki, séum við nú að fara að ræða hvernig, hve mikið og hvað meira en bara styrki.

En við þurfum styrki áfram - við þurfum kannski að breyta orðræðunni sem við notum þegar við tölum um styrki til einkarekinna fjölmiðla. Við þurfum styrki til að leiðrétta markaðsbrest sem ekki síst er tilkominn vegna smæðar tungumálsins og samkeppni við alþjóðlega tæknirisa. En við þurfum líka stuðning til einkarekinna fjölmiðla til stuðnings lýðræðinu. Um það hljótum við að geta komið okkur saman um. Um það þurfum við samfélagssátt. Og eftir henni kalla ég nú formlega.

Ræða formanns BÍ á málþingi um styrki til einkarekinna fjölmiðla 7. feb 2022