Tyrkir setja lög gegn upplýsingaóreiðu

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti

Tyrklandsþing hefur samþykkt ný lög sem hafa það yfirlýsta markmið að uppræta upplýsingaóreiðu, en þau veita stjórnvöldum heimild til að hneppa blaðamenn, bloggara og notendur samfélagsmiðla í allt að þriggja ára fangelsi, á þeirri forsendu að þeir teljist hafa dreift röngum eða misvísandi upplýsingum. 

Lokaáfangi þessarar nýju löggjafar var lögleidd á þinginu í Ankara sl. fimmtudag, 13. október, með atkvæðum flokksmanna Recep Tayyip Erdogans forseta og bandamanna þeirra. Sá áfangi snýr að því að gera samfélagsmiðlafyrirtækjum skylt að afhenda stjórnvöldum allar persónuupplýsingar um notendur sem grunaðir eru um að dreifa „falsfréttum“. 

Erdogan, sem hefur safnað æ meiri völdum á sínar hendur á undanförnum árum og sýnt æ minna umburðarlyndi gagnvart hvers kyns andófi, hafði haldið því fram að nauðsynlegt væri að berjast gegn upplýsingaóreiðu og kallaði samfélagsmiðla ógn við lýðræðið. 

Samkvæmt frásögn The New York Times hafa þó margir andmælt þessum málflutningi forsetans, þar á meðal stjórnarandstöðuþingmenn, talsmenn fjölmiðlafrelsis og mannréttindalögfræðingar, og lýst hinum nýju lögum sem raunverulegri ógn við lýðræðið. Óljóst orðuð ákvæði laganna væru til þess fallin að gefa stjórnvöldum færi á að lögsækja alla gagnrýnendur og blaðamenn sem birta upplýsingar um spillingu eða misgjörðir unnar af fulltrúum eða skjólstæðingum stjórnvalda. 

Þessar áhyggjur tengjast því meðal annars að um mitt næsta ár eiga að fara fram bæði forseta- og þingkosningar í Tyrklandi. Vegna óheyrilegrar verðbólgu og óstjórnar í efnahagsmálum hefur stuðningur kjósenda við Erdogan og flokk hans dalað skarpt og því getur Erdogan og flokkur hans ekki gengið að sigri vísum, að því gefnu að kosningarnar fari eðlilega fram. 

Hin nýju lög gegn upplýsingaóreiðu eru enn einn áfanginn að því sem mannréttindasamtök nefna kerfisbundna þrengingu tjáningarfrelsis í Tyrklandi í stjórnartíð Erdogans, en hann hefur haldið um valdatauma landsins síðan árið 2003 – fyrst sem forsætisráðherra en sem forseti síðan 2014. 

Á undanförnum árum hafa fréttavefir erlendra miðla, þar á meðal Voice of America og Deutsche Welle, verið teknir niður af tyrkneskum stjórnvöldum, tyrkneskar stjórnvarpsstöðvar og dagblöð sætt æ strangari ríkisstýringu, og borgarar sætt handtöku sakaðir um glæpi á borð við að „móðga forsetann“. En samfélagsmiðlar og innlendir vefmiðlar hafa notið aðeins meira tjáningarfrelsis, sem óttast er að nýju lögin muni grafa undan. 

Áður en þessi nýja löggjöf kom til hefur Tyrkland sætt síaukinni alþjóðlegri gagnrýni fyrir takmörkun tjáningarfrelsis. Þannig hefur stofnunin Freedom House sett Tyrkland í flokkinn „ekki frjálst“ í frelsisvísitölu sinni, og Tyrkland situr nú í 149. sæti af 180 löndum á fjölmiðlafrelsisvísitölu Blaðamanna án landamæra