Upplýsingastefna stjórnvalda í samráðsgátt

Forsætisráðuneytið lagði drög að nýrri upplýsingastefnu stjórnvalda inn í samráðsgátt þann 13. september síðastliðinn. Opið er fyrir innsendingu athugasemda þar til og með 9. október, þ.e. nk. sunnudag. 

Upplýsingastefnu stjórnvalda „er ætlað að endurspegla gildi opinnar og vandaðrar stjórnsýslu og skilgreina megináherslur við miðlun og meðhöndlun upplýsinga.“ 

Eins og gefur að skilja snertir upplýsingastefna stjórnvalda störf blaðamanna með margvíslegum hætti og því eðlilegt að þeir láti sig málið varða. 

Málið er kynnt með þessum texta inni í samráðsgáttinni: 

„Í upplýsingastefnu stjórnvalda eru sett fram leiðarljós, meginmarkmið og helstu áherslur stjórnvalda við miðlun upplýsinga. Stefnan á að vera leiðbeinandi fyrir öll stjórnvöld: ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands, stjórnsýslunefndir, sveitarfélög og aðrar opinberar stofnanir.

Leiðarljós stefnunnar er að stjórnvöld viðhafi gagnsæja stjórnarhætti þar sem almenningur hefur aðgang að skýrum, traustum og áreiðanlegum upplýsingum um starfsemi stjórnvalda og opinber málefni.

Í stefnunni eru sett fram þrjú meginmarkmið:

1. Gagnsæi í störfum stjórnvalda.

2. Öflug miðlun upplýsinga.

3. Greiður aðgangur að upplýsingum.

Kveðið er á um upplýsingastefnu stjórnvalda í ákvæði 3. mgr. 13. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ákvæðið kveður á um að mörkuð skuli upplýsingastefna til fimm ára í senn í samráði við almenning, Blaðamannafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, skjalaverði opinberra skjalasafna og háskóla- og vísindasamfélagið. Þar eigi meðal annars að hafa að leiðarljósi að mæta þörfum lýðræðislegs samfélags fyrir vandaðar og áreiðanlegar upplýsingar.“