Útgáfu fagnað

F.v.: Guðrún Guðlaugsdóttir, Ólafur Sigurðsson, Anna Kristín Brynjúlfsdóttir ekkja Elíasar Snælands …
F.v.: Guðrún Guðlaugsdóttir, Ólafur Sigurðsson, Anna Kristín Brynjúlfsdóttir ekkja Elíasar Snælands Jónssonar, Edda Andrésdóttir, Jón Birgir Pétursson, Bogi Ágústsson, Kristinn Ingvarsson, Þórarinn Jón Magnússon og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ.
Mynd: Auðunn Arnórsson

Jólabókin í ár fyrir íslenska blaðamenn er án efa nýjasta bindið í ritröð BÍ um íslenska blaðamenn, en útgáfu þess var fagnað með móttöku í sal BÍ í gær, 14. desember. Þangað mættu fimm af þeim tólf blaðamönnum sem talað er við í bókinni og ekkja eins viðmælandans einnig, sem féll frá í millitíðinni. 

Nýja bindið, sem ber titilinn „Af lífi og sál“, er það þriðja í ritröðinni, en í því er rætt við tólf reynslumikla blaðamenn. Guðrún Guðlaugsdóttir skráði og Kristinn Ingvarsson ljósmyndari tók portrettmyndir af viðmælendunum. Þau sem talað er við í bókinni eru:

Árni Bergmann, Bogi Ágústsson, Edda Andrésdóttir, Egill Helgason, Elías Snæland Jónsson, Jón Birgir Pétursson, Margrét Heinreksdóttir, Markús Örn Antonsson, Ólafur Sigurðsson, Sigrún Stefánsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir og Þórarinn Jón Magnússon. 

Útgáfan í tengslum við 125 ára afmæli félagsins

Í formála Birgis Guðmundssonar, sem er ritstjóri ritraðarinnar, segir meðal annars: 

„Þessi bók er þriðja bókin í bókaflokki um íslenska blaðamenn, þar sem fjölmiðlafólk er tekið tali og rætt við það um bæði um blaðamennsku og um lífshlaup þess. Að þessu sinni er fanga leitað aðeins út fyrir skráða félaga í Blaðamannafélaginu, en áður miðaðist val viðmælenda við lægstu númerin í félagatali BÍ. Viðmælendur í þessari bók hafa hins vegar ekki verið í stöðugum félagatengslum við BÍ þannig að þeir hafi fallið inn í félagatals-númeraröðina. Þau eiga það þó öll sameiginlegt að hafa verið af lífi og sál í blaðamennskunni um lengri eða skemmri tíma, sett mark sitt á hana og hafa frá mörgu að segja. Bækur þessar hafa tengst því að Blaðamannafélagið hefur fagnað stórafmælum, og er þessi bók engin undantekning frá því, en félagið fagnar 125 ára afmæli í ár.

Hugmyndin með bókunum hefur verið tvíþætt. Annars vegar sú að varðveita með rituðum hætti ómetanlegar upplýsingar um sögu blaðamennsku og fjölmiðlunar í landinu og hins vegar að fá tækifæri til að skyggnast með persónulegri hætti inn í líf, störf og sjónarmið fólks sem starfað hefur í þessu fagi. Bækurnar hafa því haft umtalsvert sagnfræðilegt vægi auk þess sem viðtölin eru undantekningarlaust spennandi lesefni um áhugavert fólk.“

Auk formála skrifar Birgir Guðmundsson stuttan fræðilegan inngangskafla í bókina, þar sem reynt er að setja viðtölin í samhengi við tímabilaskiptingu í íslenskri fjölmiðlasögu. Það er Blaðamannafélaga Íslands sem gefur út og gerir það í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Sögur útgáfu.