Útgáfuraunir á Bretlandi

Blaðið i var sett á stofn 2012 og er selt á 60 penc virka daga en fyrir eitt pund um helgar og hefur…
Blaðið i var sett á stofn 2012 og er selt á 60 penc virka daga en fyrir eitt pund um helgar og hefur notið talsverðra vinsælda.

Framtíð dagblaða í eigu Johnston Press félagsins hefur verið tryggð eftir að félagið JPIMedia keypti útgáfuna. JPIMedia er nýstofnað félag, sett á fót gagngert til að kaupa útgáfurétt nokkurra dagblaða sem áður voru í eigu Johnston Press. Meðal þekktra blaða má nefna; i, The Scotsman og Yorkshire Post. Kaupin eru gerð í skyndingu enda var var útgáfufélagið tekið til gjaldþrotaskipta á laugardaginn. Í tilkynningu frá Johnston Press kemur fram að starfsmenn muni halda vinnu sinni.

Gjaldþrotið kemur í kjölfar hraðversnandi rekstrarstöðu en Johnston Press var sett í söluferli fyrir rúmum mánuði í von um að bjarga útgáfunni. Johnston Press var einn stærsti útgefandi staðbundinna blaða á Bretlandi en háar skuldir sliguðu félagi. Er talið að um 220 milljón punda skuld eða um 35 milljarðar króna verði komin á gjalddaga í júní næstkomandi og félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar að því er kemur fram í frétt BBC. Með kaupunbum nú er vonast til þess að hægt verði að lækka skuldir umtalsvert og hyggjast nýir eigendur setja 35 milljónir punda inn í útgáfuna.

Bresku blaðamannasamtökin (National Union of Journalists) hafa varað við því ef þessar aðgerðir verði notaðar til að rýra kjör og starfsumhverfi blaðamanna eða á einhvern hátt draga úr gæðum blaðanna.

Johnston Press hefur gefið út blöð á yfir 200 stöðum í Skotlandi og Norður-Írlandi og einnig í suðurhluta Englands. Félagið var sett á fót í Falkirk árið 1767 og skráð í kauphöllinna í London árið 1988 og tók að vaxa með yfirtökum.