Við erum ekki bloggarar

Titill pistilsins á bls. 3 í Blaðamanninum 1/2022.
Titill pistilsins á bls. 3 í Blaðamanninum 1/2022.

Pistill varaformanns BÍ, Aðalsteins Kjartanssonar, birtur á leiðarasíðu Blaðamannsins 1/2022.

Ein stærsta áskorun sem stétt blaðamanna stendur frammi fyrir er hin óljósa lína sem er í huga lesenda og áheyrenda á milli faglegrar blaðamennsku og bloggs. Þetta er í sjálfu sér ekki ný áskorun en hefur orðið miklum mun stærri samhliða því að hver sem er getur opnað vefsíðu eða byrjað að senda sjónvarps- eða útvarpsþætti í gegnum netið. Fyrirtæki birta „fréttir“ á vefsíðum sínum og stjórnmálaleiðtogar halda úti útvarpsþáttum þar sem þeir tala við starfsfólkið sitt sem eru í hlutverki spyrils. Í stað þess að svara spurningum blaðamanna senda sömu aðilar tilkynningar eða birta stöðuuppfærslur á Facebook. Hlaðvörp eru orðinn vettvangur fyrir fólk að segja frá einhverju, óáreitt frá gagnrýnum spurningum blaðamanna sem eiga trúnað við áheyrendur en ekki viðmælendur.

Eðli frétta er að segja frá því sem er ekki eins og við búumst við að það sé; fréttir og umfjallanir þurfa að vera í frásögur færandi. Það er ekki fréttnæmt þegar einhver gerir það sem hann á að gera. Í eðli sínu eru fréttir því neikvæðar, þó það sé ekki algilt. Það er því eftir töluverðu að slægjast fyrir áhrifafólk að tala niður mikilvægi blaðamannastéttarinnar. Hugmyndin um að allir séu blaðamenn er ein birtingarmyndin á því hvernig þessi hópur, sem gjarnan er andlag umfjöllunar blaðamanna, tekur virkan þátt í að má út línuna sem skilur á milli blaðamennsku og bloggskrifa. Önnur birtingarmynd er að vilja stýra því hvernig fjölmiðlar vinna og hverjir þeirra lifa. Enn á eftir að hrinda í framkvæmd flestum tillögum nefndar sem skilaði ráðherra fjölmiðlamála skýrslu árið 2018 um leiðir til að styðja við frjálsa fjölmiðlun á Íslandi. Styrkjakerfið er það eina sem tekið var úr tillögunum og ekkert bólar á öðru. Stuðningurinn hefur verið skorinn niður ár frá ári, allt þar til nú, eftir að fjárlaganefnd samþykkti óvænt 100 milljóna króna aukið framlag.

Aukamilljónirnar voru þó bundnar einum miðli sem engann blaðamann hefur, engan ritstjóra og hefur á undanförnum misserum tekið fyrir að flytja fréttir. Fyrst og fremst mátti skilja á fjárlaganefnd að skortur væri á umfjöllun um landsbyggðina. Hið rétta er þó að margar af stærstu fréttum síðustu missera eru af landsbyggðinni. Allar fréttir um og af Samherja fjalla um fyrirtæki sem starfar fyrst og fremst annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og þó Reykjavík dansi við Vestmannaeyjabæ um að vera stærsti útgerðarbærinn hverju sinni eru flestar umfjallanir um sjávarútveg af landsbyggðinni. Sama má segja um landbúnað og samgöngur þó auðvitað sé talað um Borgarlínu. Það er því líklega átt við skort á jákvæðum fréttum á forsendum þess sem til umfjöllunar er. Fleiri blogg í myndformi.

Blaðamenn þurfa að standa vörð um grunngildi faglegrar blaðamennsku og þar eru siðareglur félagsins eitt af beittustu vopnunum. Þær eru nú til endurskoðunar og mikilvægt er að þær endurspegli raunveruleikann sem blaðamenn starfa við í dag. Ef við sem stétt stöndum ekki upp fyrir faglegum gildum er líklegt að enginn geri það.