Vinningshafar Blaðamannaverðlauna 2020

Tilkynnt var um verðlaunahafa Blaðamannaverðlaunanna í beinu streymi frá húsakynnum Blaðamannafélagsins í dag.   Verðlaunin voru veitt í fjórum flokkum eins og áður og voru verðlaunahafar eftirfarandi:

Umfjöllun ársins

Sunna Ósk Logadóttir, Bára Huld Beck, Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson og Jónas Atli Gunnarsson á Kjarnanum, fyrir umfjöllun um eldsvoðann á Bræðraborgarstíg 1 og margháttaðar afleiðingar hans.

Umsögn dómnefndar:

Í umfangsmikilli umfjöllun er fjallað af næmni og dýpt um mannskæðan húsbruna á Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík í fyrrasumar. Blaðamennirnir nálgast atburðinn frá ótal hliðum, frá þeim mannlega harmleik sem átti sér stað, yfir í kerfislæga jaðarsetningu og oft á tíðum óboðlegan aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi. 

 

Viðtal ársins

Orri Páll Ormarsson á Morgunblaðinu, fyrir viðtal við Ingva Hrafn Jónsson

Umsögn dómnefndar:

Í viðtali Orra Páls við Ingva Hrafn Jónsson undir fyrirsögninni Vill lögleiða dánaraðstoð er dregin upp ný hlið á annars þjóðþekktum manni. Ingvi Hrafn ræðir bróðurmissi á liðnu ári og þau djúpstæðu áhrif sem ákvörðun bróður hans um að þiggja dánaraðstoð hafði á hann. Í framhaldinu fjallaði Orri Páll nánar um dánaraðstoð og dýpkaði með umfjöllun sinni umræðu um þetta viðkvæma mál.

 

Rannsóknarblaðamennska

Nadine Guðrún Yaghi, Fréttastofu Stöðvar tvö, Bylgjunnar og Vísis, fyrir umfjöllun um umfangsmikil og afdrifarík mistök sem gerð voru við greiningar á leghálssýnum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Umsögn dómnefndar:

Nadine Guðrún Yaghi afhjúpaði umfangsmikil og afdrifarík mistök sem gerð voru við greiningu á leghálssýnum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Fréttaflutningurinn leiddi til þess að þúsundir sýna voru endurgreind og fjöldi frumubreytinga, sem ella hefðu ekki fundist, komu í ljós. Sögð var saga kvenna sem höfðu ýmist greinst með ólæknandi krabbamein, farið í legnám eða látist. Umfjöllunin varpaði ljósi á brotalöm í greiningarferli sem notið hefur trausts.

 

Blaðamannaverðlaun ársins

Þórhildur Þorkelsdóttir, RÚV, fyrir fréttaflutning og viðtöl í tengslum við erfið og oft viðkvæm mál.

Umsögn dómnefndar:

Þórhildur fjallaði meðal annars um ótrúlegt björgunarafrek í Hafnarfjarðarhöfn, alvarleg mistök læknis á bráðamóttöku, kynferðisbrot á þroskaskertri konu í dagvistun á vegum Reykjavíkurborgar. Í þessum málum og fleirum sem Þórhildur hefur fjallað um tekur hún ítarleg, greinargóð og einnig áhrifarík viðtöl við þolendur og aðra sem að málum koma og dýpkar með því skilning bæði á atburðunum sjálfum og afleiðingum þeirra.