Hvatt til sátta við þingfestingu Grindavíkurmáls

Flóki Ásgeirsson, lögmaður BÍ, og Sonja Berndsen, lögmaður ríkisins, að lokinni þingfestingu í dag. …
Flóki Ásgeirsson, lögmaður BÍ, og Sonja Berndsen, lögmaður ríkisins, að lokinni þingfestingu í dag. Ljósmynd/Viðar Guðjónsson

Dómari hvatti Blaðamannafélag Íslands og íslenska ríkið til sátta við fyrirtöku Grindavíkurmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. BÍ fékk á mánudag flýtimeðferð í máli sem félagið hefur höfðað á hendur ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til þess að stunda störf sín í Grindavík þrátt fyrir ákvörðun um brottflutning af svæðinu. Dómari féllst á beiðni lögmanns ríkisins um fjögurra vikna frest til þess að fara yfir málið og vinna greinargerðir. Fyrirtaka verður því 6. mars, nema sátt náist. 

Flóki Ásgeirsson, lögmaður BÍ segir: „Sáttaumleitanir eru lögbundinn liður í meðferð dómsmála og eðlilegt að aðilar dómsmáls leysi ágreining sinn sjálfir ef þess er nokkur kostur. Samskipti aðila í þessu máli hafa verið mjög takmörkuð fram til þessa þar sem engin viðbrögð hafa borist frá ríkisvaldinu við ítrekuðum erindum BÍ. Það er því eðlilegt að dómurinn beini því til aðila að ræða saman. Ekki stendur á BÍ í þeim efnum.“

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, segir að félagið muni að sjálfsögðu leggja sitt af mörkum við að ná sáttum í málinu. „Eina markmið félagsins með málshöfðuninni er að knýja fram niðurstöðu í deilu blaðamanna og lögreglustjórans um það hvort honum sé heimilt að takmarka störf þeirra á vettvangi sem raun ber vitni. Við höfum ítrekað óskað eftir rökstuðningi frá lögreglustjóranum, en einnig dómsmálaráðuneytinu, um ákvörðun hans um takmörkun á aðgengi blaðamanna og óskað eftir vísun í lagaheimildir. Okkur hefur ekki verið svarað og því vorum við neydd til þess að fara dómstólaleiðina,“ segir hún. „Verði viðbrögð ríkisins þess eðlis að við getum fallist á lagalegar forsendur þeirra fyrir ákvörðun lögreglustjórans, munum við endurskoða málareksturinn í ljósi þess. Einnig ef ríkið fellst á að takmörkun á störfum blaðamanna hafi verið ólögmæt, líkt og við höfum haldið fram“, segir Sigríður Dögg.

Blaðamannafélagið krefst þess að viðurkennt verði með dómi að blaðamönnum sé það heimilt án sérstaks leyfis lögreglustjórans á Suðurnesjum, fari þeir að þeim almennu fyrirmælum sem í gildi eru á hverjum tíma um umferð um bæinn og lokun einstakra svæða og öðrum lögmætum fyrirmælum lögreglu. 

BÍ hefur frá því í nóvember reynt að fá skýringar eða rökstuðning fyrir ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir þeim verulegu takmörkunum sem blaðamenn hafa þurft að sæta varðandi aðgang að Grindavík á sama tíma og umfangsmikil starfsemi hefur verið í bænum. Félagið, sem og einstaka blaðamenn og fulltrúar ritstjórnar, hafa margítrekað mótmælt þeim takmörkunum sem verið hafa á aðgangi blaðamanna að Grindavík og möguleika þeirra á að flytja fréttir af þeim atburðum sem þar hafa átt sér stað. Lögreglustjórinn hefur ekki svarað erindum félagsins. Félagið sér ekki hvernig takmarkanir lögreglustjórans á aðgengi blaðamanna að Grindavík eigi sér stoð í lögum.

Hér má nálgast gögnin sem BÍ lagði fram við þingfestingu í dag.